Hér eru fimm helstu atriði næturinnar tengd stríðinu í Úkraínu.
Rússar gáfu Úkraínumönnum frest til klukkan 4 í nótt að staðartíma til að leggja niður vopn í Maríupól. Í staðinn buðust Rússar til að heimila fólki að yfirgefa borgina sem er nánast rústir einar. Iryna Veresjtsjuk, varaforsætisráðherra, sagði í nótt að uppgjöf kæmi ekki til greina og að Rússum hafi verið tilkynnt það. Maríupól er umsetin rússneskum hersveitum og barist hefur verið hús úr húsi í borginni síðustu sólarhringa. Fyrir stríð bjuggu um 400.000 manns í borginni.
Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, fordæmdi í nótt því sem er lýst sem „ránum og brottflutningi“ á Úkraínumönnum frá Maríupól. Fordæmingin kom í kjölfar ummæla úkraínsks þingmanns sem sagði að samlandar hennar væru neyddir til að flytja til „fjarlægra staða í Rússlandi“ til að vinna við aðstæður sem minna á þrælahald. Truss sagðist vera brugðið vegna þessa og hét því að Vladímír Pútín, Rússlandsforseti verði látinn sæta ábyrgð vegna þessa. Fréttir um að mörg þúsund íbúar í Maríupól hafi verið nauðungarfluttir til Rússlands eru enn óstaðfestar.
Það var frekar rólegt á vígvöllunum í gær en í gærkvöldi gerðu Rússar sprengjuárásir á Kyiv, meðal annars á Podilskyi hverfið þar sem eru verslanir og íbúðarhúsnæði. Úkraínsk yfirvöld segja að minnst fjórir hafi látist í árásunum.
Volodymyr Zelenskyy, Úkraínuforseti, segir að Ísraelsmenn vinni hörðum höndum að því að koma leiðtogafundi Úkraínumanna og Rússa á. Hann gaf í skyn að hugsanlega verði fundað í Jerúsalem.
Loftárás Rússa á borgina Sumy í nótt varð til þess að ammóníakleki kom upp í borginni. Hann nær í um 2,5 km radíus frá efnaverksmiðjunni að sögn héraðsstjórans í Sumy. Íbúum tveggja þorpa hefur verið ráðlagt að leita skjóls neðanjarðar og hafa rakan klút fyrir vitum sínum.