Kraftajötuninn og nú hnefaleikakappinn Hafþór Júlíus Björnsson bar sigur úr býtum gegn keppinauti sínum og svörnum óvini, Bretanum Eddie Hall, í boxbardaga í Dubai í kvöld. Um var að ræða sýningabardaga, alls sex lotur, og flestum að óvörum kláruðu kapparnir allar loturnar.
Hafþór var síðan úrskurðaður sigurvegari viðureignarinnar og þótti sú niðurstaða sanngjörn. Hall náði að kýla Hafþór Júlíus niður í upphafi bardagans en Íslendingurinn hafði yfirburði eftir það og var klárlega betri í hnefaleikum.
Eftir viðureignina kvaðst Hafþór Júlíus vera opinn fyrir hugmyndinni um annan bardaga. Eddie Hall neitaði að ræða við fjölmiðla að loknum bardaganum.
Hér má lesa textalýsingu af bardaganum á breska miðlinum Mirror.