Aðalmeðferð í máli Zúistabræðranna Ágústs Arnars Ágústssonar og Einars Ágústssonar hefur undanfarnar vikur farið fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þeim er gefið að sök að hafa svikið tæpar 85 milljónir króna úr íslenska ríkinu en þeir neita báðir sök.
Í umfjöllun Vísis um aðalmeðferðina kom fram að Jón Bjarni Kristjánsson, verjandi Einars í málinu, hafi líkt Zuism, trúfélagi bræðranna, við Ásatrúarfélagið fyrir dómi. Það gerði hann eftir að saksóknari hafði lagt áherslu á að trúfélagið hafi ekki verið að fullnægja þeim skilyrðum sem gerð er til trúfélaga í lögum.
Einar sagði að Ásatrúarfélagið væri fyrst og fremst að bjóða upp á athafnir en að félagið væri ekki að halda reglulega viðburði. Þá sagði hann að meðlimir félagsins væru helst að koma saman til að blóta en auk þess væri mætt til að lesa Hávamál og drekka áfengi.
Þessi orð fóru öfugt ofan í forystu Ásatrúarfélagsins. Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði og Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði og staðgengill allsherjargoða segja að sér og öðrum félögum í Ásatrúarfélaginu sé misboðið í pistli sem birtist á Vísi í dag.
Þau segja að orð Einars um félagið séu röng og að það sé greinilegt á orðum hans að þekking hans á starfsemi Ásatrúarfélagsins sé engin. „Staðreyndin er þessi: Ásatrúarfélagið heldur úti mikilli menningarstarfsemi og þjónustu við félaga þess allan ársins hring af ábyrgð og drengskap og samkvæmt lögum. Á viðburðum á vegum félagsins er áfengi aldrei í boði,“ segir í pistli þeirra.
Hilmar og Jóhanna fara þá yfir það hvernig félagið þjónustar meðlimi þess. Það sjái til að mynda um nafngjafir, siðfræðslu fyrir unglinga, siðfestuathafnir (heiðin ferming), hjónavígslur og útfarir með allri þeirri umönnun og vinnslu sem því tilheyrir. Þá segja þau goða félagsins vera til staðar fyrir félagana um allt land og að þeir sinni starfskyldum við félagið og fólkið með ýmsum hætti.
„Blót eru haldin um allt land með fyrirfram skipulögðum hætti sem sagt Landvættablót, Jólablót, Þorrablót, Sumardagsblót, Jafndægrablót að vori og hausti, Þingblót, Dísablót eða Haustblót. Auk þessara föstu blóta boða goðarnir sjálfir til blóta víðs vegar um landið af öðru tilefni þegar þeir vilja og þurfa þykir.“
Þá benda þau á að fyrir utan þessar athafnir sem þau nefna sé margvísleg menningarstarfsemi haldin á vegum félagsins. Covid-19 hefur þó sett strik í reikninginn á þeirri starfsemi undanfarin tvö ár. „Þar má meðal annars nefna alls kyns námskeið og fræðslufundi um menningu og umhverfismál, leshring, handverkskvöld, goðafundi í héraði og margt, margt fleira,“ segja þau.
Að lokum segjast þau hafa skrifað pistilinn til að gæta sannmælis í fjölmiðlum. „Ásatrúarfélagið telur sig yfir samanburð við Zuisma hafið, en vill að sannmælis sé gætt í fjölmiðlum.“