fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Gullströndin minnir á sig

Egill Helgason
Mánudaginn 2. apríl 2018 12:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vestur í bæ voru eitt sinn öskuhaugar Reykjavíkur. Borgarbúar sem eru komnir á efri ár muna eftir þessu. Rusli var hent þarna við borgarmörkin, þar sem nú er Eiðisgrandi. Þar var urmull af rottum, en svo mátt líka finna ýmislegt fémætt á öskuhaugunum. Það gerði Pétur Hoffmann Salómonsson, kynlegur karl sem setti svip á borgina.

 

 

Pétur gramsaði eftir dýrgripum á öskuhaugunum, seldi þá svo í Austurstræti, við vegginn á Útvegsbankahúsinu. Pétur kallaði öskuhaugana Gullströndina, eins og lesa má í þessari frétt frá 1957.

 

 

Nú er þetta allt breytt. Þarna hafa verið gerðar gríðarlegar uppfyllingar. Akbrautin sem liggur út á Seltjarnarnes er að miklu leyti á uppfyllingum. Svo hafa verið hlaðnir grjótgarðar meðfram fjörunni, yfir þá er hægt að klöngrast og niður að sjávarmáli. Það verður líka að segjast eins og er að ströndin er allmiklu hreinni en hún var í eina tíð þegar rotturnar réðu ríkjum. Ég man eftir að hafa verið í leiðangri með strákum sem ætluðu að fara vestur á Granda að skjóta rottur með teygjubyssum. En veiðin var heldur léleg í þeirri ferð.

En sóldaginn sumarlangan
fer saltlykt og tjöruangan
um ströndina víða vega.
Úr grjótinu gægist rotta.
Og gömlu bátarnir dotta
í naustunum letilega.

Orti Tómas í kvæðinu sínu um vorkvöldið í Vesturbænum.

En Gullströndin minnir aðeins á sig. Í Mogga má lesa frétt um að Reykjavíkurborg þurfi að veita Búseta afslátt vegna lóðar vestur á Keilugranda sökum þess að jarðvegur hafi reynst vera mengaður. Þarna stóð áður skemma kennd við SÍF. Hún hefur verið rifin og þarna á að rísa íbúðabyggð. En mengunin stafar af því að eitt sinn voru þarna öskuhaugar bæjarins, sem nú eru komnir lengra inn í landið vegna uppfyllinganna. Jarðvegurinn er gljúpur og langt niður á fast berg og það þarf að reisa húsin á súlum, eins og sjá má á þessari mynd sem var tekin í göngutúr á laugardaginn.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Í gær

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“