fbpx
Sunnudagur 23.febrúar 2025
Fréttir

Varar við rafrænu þróuninni – Tugir milljóna sviknar frá nákomnum aðila – „Þetta er orðið sjúkt, það er bara mín skoðun“ 

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 17. mars 2022 18:30

Skúli Sveinsson, lögmaður Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögmaðurinn Skúli Sveinsson hefur nýlega fengið til sín tvö mál er varða misnotkun á rafrænum skilríkjum. Hann telur að kerfið sé að verða of ópersónulegt og ekki sé hægt að ganga að því vísu að réttur aðili sé að baki hinum rafrænu skilríkjunum.

Skúli vakti fyrst athygli á málinu inn á Facebook-hóp áhugamanna um lögfræði í tengslum við frumvarp dómsmálaráðherra að fækka sýslumönnum landsins úr níu yfir í einn.

Dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, ætlar að leggja frumvarpið fram á næstunni með vísan til samfélagslegra aðstæðna og tækninýjunga sem kalli á breytta uppbyggingu sem greiði betur fyrir starfrænni þjónustu.

Skúli telur þessa þróun – í átt að rafrænum undirskriftum og samþykki – ekki til heilla.

Lántökur með fölsuðum rafrænum undirskriftum

Í samtali við blaðamann segir Skúli að þessi tvö mál sem hann hafi aðkomu að hafi bæði verið kærð til lögreglu, en bæði málin varða misnotkun á rafrænum skilríkjum eldri einstaklinga.

„Í öðru tilfellinu varðar þetta aðila sem kemur inn á heimilið til að sinna þar ákveðinni þjónustu. Sá kemst með einhverjum hætti yfir aðgang að síma og þar með rafrænum skilríkjum viðkomandi.“ 

Sá aðili komst einnig yfir leyninúmer viðkomandi og gat því beitt rafrænu skilríkjunum að vild.

„Við sem erum yngri erum með símana okkar og notum þetta. Þeir sem eru eldri eru ekki alltaf eins tæknilega sinnaðir og við. Sumir jafnvel skrifað niður lykilorðin sín svo að ef einhver hefur aðgang að viðkomandi, eða heimilinu þá verður tiltölulega auðvelt fyrir óprúttna að komast yfir þessi lykilnúmer.“ 

Í umræddu máli hafi rafrænu skilríkin meðal annars verið notuð til að stofna til lánaviðskipta fyrir nokkuð háar fjárhæðir.

„Ef þú kemst yfir rafræn skilríki einhvers getur þú farið inn á bankann hjá viðkomandi, þú getur framkvæmt millifærslur, þú getur farið og stofnað til lánaviðskipta hjá fyrirtækjum úti í bæ, tekið lán og millifært.“ 

Sveik út tugi milljóna

Seinna tilfellið varðaði nákominn aðila sem misnotaði rafræn skilríki ættingja. Það mál er öllu umfangsmeira en það fyrra og varðar tugi milljóna króna.

„Um leið og hann kemst yfir skilríkin stofnaði viðkomandi sérstakt tölvupóstfang, svo fer hann og tekur smálán og lán hjá fimm smálánafyrirtækum. Og það sem ótrúlegt er að honum tekst að stofna til bankaviðskipta hjá banka með rafrænu skilríkjunum – fer í gegnum allt það ferli til að stofna reikning hjá nýjum banka og tekur svo lán hjá þeim banka og lætur millifæra á reikning sem hann hafði aðgang að. Þetta eru tugir milljóna sem er búið að taka þar.“

Skúli segir að í báðum tilfellum hafi verið tiltölulega auðvelt að finna gerandann. Peningarnir hafi þó hins vegar verið farnir og verða ekki endurheimtir.

Hver er staðan þín?

Skúli segir að sambærileg mál hafi ekki endað fyrir dómi hér á landi. En til dæmis hafi slík mál komið upp í Danmörku.

„Þar hefur ungt fólk, kærustupar, verið með sameiginlegar tölvur og svona. Svo hefur allt í einu annar aðilinn verið búinn að taka lán fyrir hinn og leggja inn á sig. Og hver er staðan þín ef ég t.d. kemst yfir símann þinn og veit pinnið þitt? Og síðan myndi ég taka lán, láta leggja inn á reikninginn þinn og millifæri svo eitthvert út í bæ, hvernig ætlar þú að sanna að þú hafir ekki gert þetta?“

Skúli segir þennan veruleika skuggalegan. Hann hafi rætt við bankann sem stofnaði reikningsviðskipti fyrir annan gerandann og þar spurt hvernig þetta vinnulag samrýmist reglum er varða peningaþvætti og kveða á um skyldu til að þekkja viðskiptavini sína.

Í báðum málum Skúla voru lánafyrirtæki til í að fella niður lán og telur Skúli mögulegt að það henti þeirra starfsemi betur að gera slíkt frekar en að láta reyna á málin fyrir dómstólum.

„Þetta hentar þeim vel að geta gert þetta með þessum hætti að þeir hafa verið tilbúnir til að afskrifa þessar kröfur. Það breytir því ekki að þetta er meiriháttar innrás í einkalífið.“

Sönnunarstaðan erfið

Skúli segir að nú sé verið að ræða að fækka sýslumönnum niður í einn og þjappa starfseminni saman. Eins hafi verið umræða fyrir nokkru um að taka upp rafrænar þinglýsingar. Sú þróun geti verið varhugaverð. Jafnvel gæti þá sú staða komið upp að óprúttnir aðilar, sem komist yfir rafræn skilríki, geti selt fasteignir án vitneskju eigenda.

„Vandinn við þessi rafrænu skilríki er það er svo auðvelt að komast yfir þau, t.d. fyrir nákomna. Þegar fólk er að slá inn leyninúmer sín þá er auðvelt fyrir óprúttna að komast að þeim með því að fylgjast með þegar viðkomandi slær þau inn.“

Engin trygging sé fyrir því að sá sem undirriti með rafrænum skilríkjum sé sá sem hann segist vera, en sönnunarstaðan fyrir þá sem er misgert við með þessum hætti er verri heldur en þegar um handskrifaðar falsaðar undirskriftir er að ræða. Það sé tjónþolans að sanna að undirskrift sé fölsuð en þegar enginn eiginleg undirritun er til staðar til að greina rithönd, eða engin vitni/vottar þá sé staðan mun verri heldur en ella.

Allt í einu býrðu bara í rafrænu samfélagi

Þróunin með rafrænum skilríkjum hefur samkvæmt Skúla orðið til þess að mannlega tengingin er orðin nánast engin. Fólk þarf varla að gera sér ferð í banka sinn lengur og getur tekið jafnvel milljónir að láni á aðeins fimm mínútum heima í stofu án þess að eiga nokkur samskipti við starfsmann lánveitanda.

„Bara allt í einu býrðu bara í rafrænu samfélagi og ef einhver kemst yfir þessar upplýsingar, þá ertu bara í klípu. Þannig að það sem ég er að segja er að það er ekki hægt að fullyrða eða tryggja að sá sem framkvæmir aðgerð með rafrænum skilríkjum sé sá sem hann á að vera.“

Nú er það bara tölvan

Annað mál sem Skúli hefur fengið inn á borð til sín varðar aðgang að sjúkraskrá sem fenginn var með misnotkun á rafrænum skilríkjum. Það mál sé ótengt hinum og varði ekki fjármuni heldur viðkvæmar persónuupplýsingar, en aftur þá sé sönnunarstaðan gífurlega erfið þar sem torvelt sé að sanna að sá sem fletti upp upplýsingum sé ekki sá sem skilríkin á.

„Þetta er orðið sjúkt, það er bara mín skoðun“ 

Frekar en að gera kerfið enn ópersónulegra telur Skúli að það ætti frekar að fara í hina áttina. Flestir lendi í því á einum tíma eða öðrum að vera í viðkvæmri stöðu, og þá skapist hætta á misneytingu. Með því að gera viðskipti við banka og samskipti við sýslumann persónulegri þá séu minni líkur á að misneytingin nái fram að ganga.

„Það er af sem áður var þegar foreldrar okkar og ömmur og afar fóru í bankann og ræddu þar við banakstjórann eða útibússtjórann um að fá víxillán. Nú er það bara tölvan.“

Sérstaklega sé hætta á misneytingu með rafrænum skilríkjum hjá eldri einstaklingum, sem gjarnan eigi eignir og séu með gott lánshæfi.

„Þegar það er sótt um lán fyrir þannig fólk þá fær það bara samþykki á fimm mínútum og greitt úr strax því það er fullkominn lántaki – á eignir, skuldar ekkert, aldrei í vanskilum. Þetta er hin nýi hugrakki heimurinn sem okkur er boðið upp á.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dómur þyngdur yfir hælisleitanda sem nauðgaði 13 ára barni

Dómur þyngdur yfir hælisleitanda sem nauðgaði 13 ára barni