Halldór Brynjar Halldórsson, lögmaður á Logos og Jóna Vestfjörð Hannesdóttir, lögfræðingur, telja að íslenska ríkið gæti verið skaðabótaskylt vegna sóttvarnaraðgerða. Þau rita grein um þetta sem birtist hjá Innherja.
Þar kemur fram að ekki sé deilt um hvort að sóttvarnaraðgerðir hafi verið réttlætanlegar í upphafi faraldursins. Hins vegar eftir víðtækar bólusetningar og með tilkomu vægara ómíkron-afbrigðisins hafi staðan mögulega verið orðin önnur og ekki lengur hægt að vísa til almannahagsmuna til að réttlæta skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum landsmanna.
Þau rekja að atvinnufrelsið sé stjórnarskrárvarið hér á landi og þurfi almannahagsmunir að vera til staðar ef það frelsið á að skerða.
Síðan hafi ómíkrón komið til sögunnar og með því afbrigði hafi staðan tekið stakkaskiptum.
„Eðlilegt er því að spyrja hvort þá hafi áfram verið þær forsendur til staðar að játa stjórnvöldum svo víðtækt mat á nauðsyn sóttvarnaraðgerða með tilheyrandi skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum.“
Segja þau óhjákvæmilegt að velta þeirri spurningu upp hvort að raunverulega hafi verið almannahagsmunir til staðar síðasta hálfa árið af sóttvarnaraðgerðum sem gætu réttlætt skerðingar á frelsi landsmanna.
Telja þau vafa undirorpið að þær réttlætingar sem hafi fylgt tillögum sóttvarnarlæknis, um að hæga þurfi á útbreiðslu veirunnar til að viðhalda starfsgetu heilbrigðiskerfisins, standist þær ströngu kröfur sem eru gerðar varðandi takmarkanir á stjórnarskrárvörðu frelsi landsmanna. Ríkinu beri lagaleg skylda til að tryggja landsmönnum þá fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma sé hægt að veita.
„Ljóst er að heilbrigðiskerfið verður að aðlaga sig að verkefnum sínum en ekki samfélagið að heilbrigðiskerfinu. Í því samhengi er eðlilegt að velta því upp hvort rétt sé að líta á mögulegt álag á heilbrigðiskerfið sem málefnalega ástæðu fyrir skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum landsmanna. Með öðrum orðum, hvort stjórnvöld geti notað vanrækslu á lögbundinni skyldu sinni (að tryggja heilbrigðisþjónustu) til að réttlæta inngrip í stjórnarskrárvarin réttindi landsmanna.“
Halldór og Jóna segja engan ágreining uppi um hvort að COVID-19 hafi verið veruleg ógn við heilsu almennings hér á landi. Þó sé nauðsynlegt að velta þeirri spurningu upp hvort of langt hafi verið gengið í sóttvarnaraðgerðum.
„Hins vegar er nauðsynlegt að velta því upp hvort faraldurinn hafi það síðasta hálfa ár sem sóttvarnaraðgerðir giltu, eftir tilkomu Ómíkrón-afbrigðisins og víðtækra bólusetninga, réttlætt þær aðgerðir sem skertu verulega atvinnufrelsi, og hvort að þær aðgerðir hafi gengið lengra en samræmis meðalhófsreglu.“
Í meðalhófsreglunni fellst að þegar stjórnvöld taka ákvarðanir sem hafa íþyngjandi áhrif á fólk þá þurfi að gæta þess að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er með tilliti til þeirra markmiða sem að er stefnt.
Halldór og Jóna benda á að ef niðurstaðan sé sú að almannahagsmunir hafi ekki verið til staðar sem réttlæti víðtækar sóttvarnaraðgerðir – þá sé ríkið skaðabótaskylt.