Í umfjöllun The Sun kemur fram að Olga hafi verið skotin í magann í mikilli skothríð nærri Donetsk í suðurhluta Úkraínu. Ekki hefur reynst unnt að sækja lík hennar vegna bardaga á svæðinu. „Hún bjargaði hermönnum allt fram á síðustu mínútu. Við erum með myndir af staðnum þar sem hún dó en vegna bardaga þar höfum við ekki enn getað jarðsett hana,“ er haft eftir dóttur hennar, Julia.
Anton Gerashchenko, ráðgjafi hjá úkraínska innanríkisráðuneytinu, minntist Olgu í gær og sagði að hún hefði verið drepin í bardaga við rússneska þrjóta: „Meira að segja þegar hún taldi útséð um að hersveitin hennar myndi lifa þetta af var hún staðföst í að verja landið sitt til síðustu stundar. Hún er þjóðhetja. Hún er hetja í mínum augum.“
Olga bjó í Marhanets, sem er um 200 km frá staðnum þar sem hún var drepin.
Hún hafði áður verið sæmd titlinum „Hetjumóðir“ en þann titil fá mæður sem eiga fleiri en fimm börn. Hún hafði eignast sex börn og ættleitt sex börn af munaðarleysingjahæli í bænum sínum.
Fjöldi fólks hefur minnst hennar á samfélagsmiðlum.
Meðal þess sem hefur verið sagt um hana er:
„Þessi úkraínska kona er sönn hetja.“
„Hvíldu í friði Olga Semidyanova, hetja Úkraínu sem ver Evrópu.“
„Olga Semidyanova barðist þar til yfir lauk fyrir landið sitt. Hvíldu í friði hetja.“