Nú eltast Vesturlönd við olígarkana og eignir þeirra og reyna að hafa upp á sem mestu af þeim. Meðal þeirra refsiaðgerða sem olígarkarnir eru beittir af ESB og Bandaríkjunum er að hald er lagt á flugvélar þeirra og snekkjur.
Þetta hefur orðið til þess að olígarkarnir reyna nú að koma flugvélum sínum og snekkjum í öruggt skjól þar sem yfirvöld ná ekki til þeirra. Þetta sýna gögn frá Marine Traffic og Flightradar en á vefsíðunum er fylgst með ferðum skipa og flugvéla.
Nýlega lögðu spænsk yfirvöld hald á snekkjuna Valeria, sem er í eigu Sergei Tjemsov, í Barcelona. Hún er metin á sem nemur um 20 milljörðum íslenskra króna. Tjemsov er ekki eini olígarkinn sem hefur orðið fyrir barðinu á áhuga Vesturlanda á lúxussnekkjunum því ítölsk og spænsk yfirvöld hafa lagt hald á snekkjurnar Lady M, Lena og Amore Vera en samkvæmt frétt The Guardian er verðmæti þeirra sem nemur um 30 milljörðum íslenskra króna.
BBC segir að bresk yfirvöld hafi lagt hald á einkaflugvél rússneska milljarðamæringsins Eugene Shvidler.
Olígarkarnir hafa því fulla ástæðu til að óttast aðgerðir evrópskra og bandarískra yfirvalda. Það virðist hafa hrundið af stað tilraunum af þeirra hálfu til að koma flugvélum sínum og snekkjum fyrir á öruggum stöðum.
Mirror segir að sumir rússnesku snekkjueigendanna hafi slökkt á staðsetningarbúnaði snekkjanna til að ekki sé hægt að fylgjast með ferðum þeirra. Ólöglegt er að slökkva á þessum búnaði. Aðrir snekkjueigendur virðast vera að koma snekkjum sínum fyrir utan seilingar evrópskra og bandarískra yfirvalda.
Einn þekktasti olígarkinn er Roman Abramovich. Hann er farinn til Moskvu. Fór þangað í einkaflugvél sinni en þar þarf hann ekki að óttast að hald verði lagt á hana. Hann á einnig tvær snekkjur sem hann er nú að reyna að koma í örugga höfn.
Önnur snekkja hans, Solaris, er nú í höfn í Svartfjallalandi, sem er ekki í ESB, en þangað var henni siglt frá Spáni. Hin snekkja hans, Eclipse, virtist einnig stefna til Svartfjallalands en nú hefur orðið breyting þar á. Nú stefnir hún í suður, líklega er förinni heitið til ákveðins staðar.
Olígarkarnir hafa nefnilega fundið fullkomna staði til að geyma snekkjur sínar utan seilingarfjarlægðar bandarískra og evrópska yfirvalda. Staði þar sem ekki er hægt að leggja hald á þær. Þetta eru Maldavíeyjar Seychellseyjar og Sri Lanka í Indlandshafi.
Á myndum sem hafa verið teknar í höfnum þar nýlega sést fjöldi rússneskra snekkja. Þær eru meðal annars í eigu Andrey Kostin, Alexei Mordawhov og Oleg Deripaska sem eru allir olígarkar.
En það getur hugsast að þetta séu ekki endanlegir áfangastaðir snekkjanna. Orðrómar eru uppi um að förinn sé heitið til Vladivostok í Rússlandi. Þar fá þær að vera í friði svo lengi sem olígarkarnir njóta verndar Pútín.