Í morgun var greint frá því að Úkraínumenn hefðu fellt fjórða rússneska hershöfðingjann síðan stríðsrekstur Pútín hófst í landinu þann 24. febrúar síðastliðinn. Úkraínska innanríkisráðuneytið sagði að úkraínskar hersveitir hefðu drepið rússneska hershöfðingjann Oleg Mitjaev í þegar rússneskar hersveitir gerðu áhlaup á Mariupol í gær.
BBC fjallaði um málið fyrr í kvöld en þar kom fram að sérfræðingar telji að þegar stríðið hófst hafi 20 hershöfðingjar stýrt umfangsmiklum aðgerðum Rússa í Úkraínu. Það þýðir að 20% þeirra hafi þegar fallið í stríðinu.
Sérfræðingar hafa klórað sér í kollinum yfir því af hverju svo háttsettir hermenn séu svo nærri víglínunni og hvort að ástæðan sé sú að stríðsreksturinn gangi mun verra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Í umfjöllun BBC er því velt upp að Úkraínumenn séu einfaldlega að leggja þunga áherslu á að finna þessa menn og vega þá.
„Það að einn væri felldur væri tilviljun. Þessi fjöldi þýðir að það sé verið að leita þá uppi,“ hefur BBC eftir Ritu Konaev frá Georgetown-háskóla. Hún segir að fréttir af slíkum vígum muni eflaust stuðla að auknum baráttuanda og bjartsýni hjá Úkraínumönnum.
Frétt Wall Street Journal virðist ýta undir þessar getgátur en þar er haft eftir nafnlausum einstaklingi sem á að vera í innsta hring hjá Zelensky Úkraínuforseta að sérstök deild innan hersins sé að leita uppi rússneska yfirmenn í átökunum.
„