Fyrr á þessu ári féll dómur í máli föður sem hafði brotið kynferðislega á dóttur sinni og tveimur systurdætrum sínum. Maðurinn var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir brotin en einnig var honum gert að greiða dóttur sinni og frænkum sínum samtals 5 og hálfa milljón í skaðabætur. Dóttir hans fékk þrjár milljónir, önnur frænkan fékk eina og hálfa milljón og hin fékk eina milljón. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 18. febrúar síðastliðinn.
Hrafnhildur Sigmarsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum, furðar sig á þessum dómi í pistli sem birtist á Vísi í dag. Þar ber hún mál föðurins saman við annað mál sem vakti mikla athygli hér á landi nýverið, mál kennarans sem sló barn. „Af einhverjum ástæðum hefur það mál verið mun meira áberandi í fjölmiðlum en ólýsanleg þjáningarsaga barnanna þriggja,“ segir Hrafnhildur.
„Sá dómur dæmdi kennara skaðabætur upp á átta milljónir króna. Kennari sá sló barn. Kennarinn var ósáttur við að hafa verið sagt upp fyrir að slá krakka, höfðaði mál fyrir ólögmæta uppsögn og vann.“
Í pistlinum spyr Hrafnhildur hvers vegna börn sem sætt hafa kynferðisofbeldi fái aðeins brot af þeim bótum sem kennari fær við atvinnumissi eftir að hafa slegið barn.
Hrafnhildur segist hafa leitað til lögfræðinga til að fá útskýringar á mismuninum á bótunum í þessum tveimur málum og að svörin frá þeim hafi verið skýr.
„Auðvelt er að reikna bætur þar sem fjárhagslegur skaði er augljós, til dæmis þegar stað á sér ólögmæt uppsögn og fólk verður af beinum peningum. Eins þegar eigur eru skemmdar eða önnur atvik þar sem hreint fjármagn eða munir eru hrifsaðir í burtu frá eigendum. Fer þá eitthvað kerfisbundið mælitæki í gang í formi reiknivéla sem metur skaðann. Til að einfalda málið þá er mælitækið hlutlægt og tekur því ekki tillit til hugræns skaða eða tilfinninga,“ segir hún að lögfræðingarnir hafi sagt.
„Miskabætur, líkt og misnotuðu börnin þrjú fengu, eru hins vegar skilgreindar sem ófjárhagslegt tjón. Í lögum kemur fram að við mat á miska, verður að styðjast við einstaklingsbundnar hugmyndir manna um verðmæti þeirra gæða sem raskað hefur verið.“
Hrafnhildur fer yfir það í pistlinum hvað ofbeldi í æsku hefur mikil og slæm áhrif á fólk síðar á lífsleiðinni. Hún bendir til að mynda á að skýr tengsl eru á milli ofbeldis sem fólk verður fyrir í æsku og alvarlegs heilsufarsvanda þegar það verður eldra. „Lögin virðast hinsvegar ekki taka mið af nýjustu rannsóknum né sannreyndri þekkingu sem hefur verið sjálfsögð og vel þekkt í þessum málaflokki lengi,“ segir hún svo.
„Þrátt fyrir sterkar aðleiddar röksemdarfærslur í fræðilegu samhengi, framúrskarandi rannsóknir sem hægt er að álykta út frá og reynslu og þekkingu fagfólks um afleiðingar ofbeldis þá virðumst við samt sem áður búa í samfélagi þar sem það er metinn sem meiri skaði að slá krakka en að verða fyrir nauðgun sem barn.“