DV fjallaði í dag ítarlega um sægrænan sendiferðabíl af gerðinni Volkswagen Caravelle Syncro en ökumaður hans hefur vakið óhug meðal fólks í miðbæ Reykjavíkur að undanförnu.
Viðmælendur DV hafa fullyrt að mörg dæmi séu um að ökumaður bílsins reyni að lokka fólk, sérstaklega konur, í bílinn sinn að djammi loknu með loforði um far heim til þeirra. Þegar á ferðina er liðið hefur maðurinn síðan reynst vera óviðeigandi og ógnandi. Hann hafi ekki farið rétta leið og „gleymir að beygja.“
Viðmælendur DV telja víst að maðurinn stundi þetta, en sést hefur til hans á bílnum að keyra í hringi um miðbæinn, að því virðist til að bjóða konum far. Bæði eru dæmi um að hann sé einn á ferðinni en einnig í slagtogi við annan mann. Varað hefur við manninum á samfélagsmiðlum og myndir birtar þar af bílnum.
Kona nokkur hafði samband við DV eftir að fyrri frétt var birt í dag en hún hefur einnig fengið far með manninum sem um ræðir. Hún var stödd niðri í bæ ásamt vinkonu sinni þegar þeim vantaði leigubíl en þær fundu engan slíkan. „Þá birtist hann [maðurinn á sendiferðabílnum] upp úr þurru og bauð okkur far,“ segir konan í samtali við blaðamann.
„Við þáðum það og ég bauðst oft til að borga honum en hann sagðist ekki vera að gera þetta fyrir peninginn heldur „gott karma“.“
Þegar þær voru komnar í bílinn og hann farinn af stað byrjaði maðurinn að haga sér furðulega og segir konan að hann hafi farið að spyrja þær furðulegra spurninga. Þá brá konan á það ráð að taka myndir af manninum og sendi þær á kærasta sinn og vinkonu sína til öryggis. „Þannig ef hann myndi reyna að gera eitthvað þá vissi fólk hver hann væri.“
Hún segir manninn hafa haldið áfram að haga sér einkennilega, hann hafi reynt að sannfæra þær um að hann væri vinalegur. „I’m a very friendly person, I am so nice, can I please be friends with you all on Facebook and get your phone numbers,“ segir konan að maðurinn hafi sagt við þær.
Þá reyndi hann að sannfæra þær enn frekar um hve góður hann væri við þær með því að segja að ferðin ætti að kosta um 20 þúsund krónur en hann væri samt að skutla þeim frítt. „Because I’m a nice person,“ segir hún að hann hafi sagt en þær voru þó bara að fara 5 mínútna leið frá miðbænum.
Á endanum sögðust þær eiga heima annars staðar en þær eiga heima í raun og veru, fóru út úr bílnum þar og sögðu manninum að fara.
Vísir greindi frá því í kvöld að ekkert mál sé inni á borði lögreglu vegna ökumanns sægræna bílsins. Jóhann Karl Þórisson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, kannast við að umræddur einstaklingur hafi verið stöðvaður á dögunum en að hann sé einn af svokölluðum skutlurum sem bjóðist til að skutla fólki heim gegn greiðslu.
„Það er fullt af svona skutlurum núna. Eins og ástandið er á leigubílamarkaðnum. Fólk á djamminu er að bíða í einn til einn og hálfan tíma. Alls konar fuglar að skutla fólki heim úr bænum,“ segir Jóhann Karl við Vísi.
Lögum samkvæmt er ólöglegt að aka gegn gjaldi nema viðkomandi sé í leigubílarekstri. Slík mál fari sína leið í kerfinu en geti þó verið erfið viðfangs fyrir lögreglu. Ef bæði bílstjóri og farþegi segist vera vinir þá geti lögregla lítið gert.
„Ég veit ekki hvort þessi sé að gera neitt meira. Það hefur allavega ekkert komið til okkar,“ segir Jóhann Karl ennfremur.