Allt gler, sem samviskusamir neytendur telja sig vera að skila til endurvinnslu hjá Endurvinnslunni hf., er urðað á þjóðlendunni Bolöldu í nágrenni Bláfjalla. Þetta kemur fram í ítarlegri fréttaskýringu Stundarinnar.
Um er að ræða gamalt námusvæði sem ríkið tók við þann 6. nóvember 2019. Mikið magn af jarðefni hafði verið tekið úr námunni var ætlunin að fylla upp í það sár með endurnýtanlegum óvirkum jarðvegsúrgangi eins og mold, möl og grjóti.
Misbrestur virðist þó vera á þessu samkvæmt umfjöllun Stundarinnar en í áðurnefndri fréttaskýringu fullyrðir blaðamaðurinn Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson að í vettvangsferð hans uppeftir hafi hann fundið plastfötur, málma, bílrúður, glerflöskur og ýmsan annan úrgang sem starfsleyfi heimili ekki að sé urðaður í gömlu námunni. Kemur fram í fréttinni að 300 vörubílar komi og losi þar úrgang daglega og aðeins einn starfsmaður, á vegum fyrirtækisins Fossvéla ehf. sem rekur urðunarstaðinn, sé á vakt sem geti illa sinnt eftirliti enda er viðkomandi einnig að færa til og slétta það efni sem komið er með til urðunar.
Mikill freistnivandi sé til staðar því að ekkert er greitt fyrir urðun á efni við Bolöldu ólíkt því ef fyrirtæki færu með efni á urðunarstað Sorpu á Álfsnesi.
Eitt skýrasta dæmið um hvernig fyrirtæki spari sér slíkan kostnað er hvernig Endurvinnslan ehf. urðar allar glerflöskur sem að neytendur skila til þeirra í Bolöldu. Alls um 5 þúsund tonn á ári samkvæmt Stundinni.
Í greininni kemur fram að Endurvinnslan spari sér um 34 milljónir króna á ári með því að fara ekki með glerið í Sorpu.
Reykjavíkurborg er ósátt við stöðu mála hefur mótmælt því við Endurvinnsluna ehf. að að glerið sé urðað við Bolöldu. Ákvörðunarvaldið sé hins vegar í Ölfusi og því hafi borgin lítið um málið að segja þrátt fyrir að greiða hluta af rekstrarkostnaði urðunarstaðarins.
Hefur Stundin undir höndum bréf sem Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri umhverfisgæða Reykjavíkurborgar, sendi til Helga Lárussonar, framkvæmdastjóra Endurvinnslunnar en því kemur fram að borginni hugnist ekki að flokkað gler sé urðað á svæðinu.
„Okkur finnst þetta metnaðarleysi hjá Endurvinnslunni, að ætla að keyra glerið í Bolöldu til urðunar þegar stefna stjórnvalda er að koma þessu efni til endurvinnslu. Þetta flokkaða endurvinnsluefni er annars eðlis en uppgröftur af framkvæmdasvæðum og mjög líklegt að urðun efnisins fái neikvæða umfjöllun sem muni beinast að sveitarfélögunum. Veit að nágrannar okkar í Kópavoginum eru sömu skoðunar,“ segir í bréfi Guðmundar.
Nánar er fjallað um málið á vef Stundarinnar