Sigurbjörg Gunnarsdóttir, safnaðarleiðtogi í Smárakirkju, var alls ekki hrifin af umfjöllun Kompás um trúarofbeldi hér á landi en í þættinum var meðal annars fjallað um Smárakirkju.
Í messu sem haldin var í kirkjunni í gær ákvað Sigurbjörg að ræða um Kompás-þáttinn en hún segir hann hafa verið ósanngjarnan. „Mig langar bara rétt áður en við förum í orðið að tala aðeins um þáttinn sem var hérna í vikunni – sem var mjög ósanngjarn í okkar garð, vægast sagt,“ sagði hún.
„Allt tal um það að við séum og að líkja okkur saman við einhverjar ofbeldishreyfingar sem hafa átt sér stað í Bandaríkjunum eða annars staðar, það er ekki fótur fyrir því, ekki einu sinni smá fótur fyrir því.“
Sigurbjörg talaði þá um rasisma en hún sagði að í Smárakirkju væru ekki rasistar. Til að sannfæra fólk um þetta sagði hún að ef hún hefði mátt velja sér húðlit þá hefði hún valið að vera svört. „Hér inni eru ekki rasistar, ég er bara að segja það. Hefði ég fengið að velja, ég held ég hefði kosið að vera frekar svört. Þú veist, svart fólk til dæmis eldist betur, nei ég segi svona. Svona í alvörunni talað, þú veist, hafiði heyrt til dæmis söngkonur, Whitney Houston? Halló? Halló? Ég vildi óska þess,“ sagði hún.
Til að sannfæra fólkið á messunni enn frekar um að ekki væru rasistar í Smárakirkju benti Sigurbjörg á að svartur maður hefur starfað í kirkjunni. „Við erum ekki, alls ekki og reyndar var hér aðstoðar pastor lengi vel, hann Ron Botha og hann er þeldökkur þannig þetta á ekki við rök að styðjast bara þannig því sé algjörlega haldið til haga. Allt sem kemur í sjónvarpinu er ekki endilega rétt,“ sagði hún.
Þá sagði Sigurbjörg einnig að kirkjan væri ekki á móti samkynhneigð. „Við erum ekki á móti hommum og lesbíum, það er af og frá. Það eru allir velkomnir hérna,“ sagði hún. „Þetta á bara ekki við rök að styðjast, þetta er bara ekki satt.“
Sunna Valgerðardóttir, einn af þeim fréttamönnum sér um fréttaskýringaþáttinn Kompás, vekur athygli á því á Twitter-síðu sinni í dag að Sigurbjörgu var beðin um viðtal tvisvar sinnum, bæði áður en þátturinn var sýndur og eftir það. Sunna segir að Sigurbjörg hafi afþakkað það í bæði skiptin.
Brot úr messunni sem um ræðir má sjá í spilaranum hér fyrir neðan: