Albert Eiríksson matgæðingur og matarbloggari með meiru tók sig til og eldað og bakaði aðeins rétti frá Úkraínu í sjö daga og þar á meðal þetta guðdómlega hvítlauksbrauð. Albert segir þetta vera alveg sjúklega gott brauð og elskar að baka eftir uppskriftum frá Úkraínu.
„Í úkraínsku er orðið pampushka notað til að lýsa glæsilegri íturvaxinni konu. Pam-poo-shka! Pampushky brauð er venjulega borið fram með borsh súpu sem er í raun rauðrófusúpa. Þetta brauð verði þið að smakka,“ segir Albert en hann heldur úti bloggsíðunni Albert eldar og þar má finna uppskriftirnar af þeim réttum sem hann útbjó sem allir eiga það sameiginlegt að vera frá Úkraínu.
Pampushky hvítlauksbrauð
1 dl mjólk eða vatn
1 msk. smjör
10 g ger
200 g hveiti
1 tsk. sykur
½ tsk. salt
Ofan á brauðið:
1 eggjarauða pískuð eða 1 msk. vatn
4 hvítlaukar, saxaðir
Steinselja eða dill eftir smekk
Byrjið á því að leysa gerið upp í skál með mjólk eða vatni. Bætið við restinni af hráefnunum saman við. Hrærið saman með skeið. Setjið hreint viskastykki yfir skálina og látið standa í 30 mínútur. Búið til meðalstórar kúlur og setjið í bökunarform/ bökunaskál eða muffins form. Leyfið kúlum aðeins standa, svona í 10 mínútur. Hrærið eða pískið saman eggjarauðu eða vatn með það sem fara ofan á pampushka nema hvítlaukinn og setjið varlega á toppinn hverri kúlu. Setjið pampushka í ofn sem búið er að hita 180°C og bakið í um það bil 25 mínútur þar til það verður fallega sólbrúnt. Þegar svona 5 mínútur eru eftir að baksturstímanum er lag að setja saxaða hvítlaukinn á toppinn, til að tryggja að hann brenni ekki.
Hægt að bjóða upp á þetta guðdómlega brauð með borsh súpu eða annarri góðri súpu að eigin vali.