Þrátt fyrir það dró ekki úr árásum Rússa um helgina og létu þeir flugskeytum og stórskotliðsskothríð rigna yfir borgi og bæi og æfingasvæði úkraínska hersins nærri pólsku landamærunum.
Samninganefndir ríkjanna funduðu mikið um helgina í gegnum fjarfundabúnað. Mykhailo Podoliak, aðalráðgjafi Volodymyr Zelenskyy, Úkraínuforseta, sagði í gær í samtali við hvítrússnesku fréttastofuna Belta viðræðunum hafi miðað áfram og að hugsanlega geti samninganefndirnar hist augliti til auglits í dag eða á morgun til að leggja lokahönd á friðarsamning.
Hann sagði að margar mismunandi tillögur væru uppi á borðinu, þar á meðal pólitískur samningur og það mikilvægasta af öllu: hernaðarsamningur. „Með því á ég við vopnahlé, formúlu fyrir vopnahlé og afturköllun herliðs,“ sagði hann.
Hann sagði jafnframt að búið væri að ræða öll málefni og nú sé verið að reyna að koma þeim saman í lagalega bindandi form.
Í myndbandi sem var birt á samfélagsmiðlum í gær sagði Podoliak að „Rússland hafi sýnt stöðu Úkraínu meiri skilning“ og að „viðræðurnar hafi færst á uppbyggilegra stig“.
„Kröfur okkar liggja fyrir. Þær eru mjög harðar. Meðal þeirra er afturköllun herliðs og vopnahlé. Þetta eru atriði sem við gefum ekki eftir,“ sagði hann.
Leonid Slutsky, aðalsamningamaður Rússa, var einnig bjartsýnn í samtali við rússnesku fréttastofuna RIA. Hann sagði að „góður árangur“ hafi náðst síðan viðræðurnar hófust og hann sagðist telja hugsanlegt að hægt verði að ljúka þeim fljótlega. Hann sagðist eiga von á að hægt verði að komast að sameiginlegri niðurstöðu og gera samning sem báðir aðilar geta skrifað undir.