MIG vélarnar eru frá tímum Sovétríkjanna og úkraínski flugherinn á einnig slíkar vélar og flugmenn hans eru því þjálfaðir til að fljúga þeim og því væri hægt að taka þær samstundis í notkun.
Með boði Pólverja fylgdi að þeir myndu gefa Bandaríkjunum vélarnar og síðan fá notaðar F-19 orustuþotur í staðinn síðar.
Kristian Søby Kristensen, forstöðumaður hernaðarmáladeildar Kaupmannahafnarháskóla, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að það að Bandaríkin hafi afþakkað vélarnar sýni að Vesturlönd „fari eins og köttur í kringum heitan graut“ til að stíga ekki of fast á tær Pútín og Rússlands en heldur ekki of mjúklega.
Hann sagði að bæði Bandaríkin og Pólland vilji forðast að tengjast afhendingu þessara véla til Úkraínu. Löndin séu í ákveðinni klemmu því þau vilji gjarnan styðja Úkraínu en óttist um leið að styggja Rússa of mikið. Pútín hafi hótað Vesturlöndum og sagt að það muni hafa afleiðingar ef þau blanda sér of mikið í stríðið og hafi minnt á kjarnorkuvopnaeign Rússa. Hann sé að reyna að fæla Vesturlönd frá því að gera meira varðandi stríðið en þau gera nú.
Þessar hótanir hans virðast hafa greinileg áhrif að mati Kristensen: „Óttinn er að þetta geti farið algjörlega úr böndunum og endi með þriðju heimsstyrjöldinni. Þetta vita báðir aðilar vel og vilja forðast en þeir þurfa samt sem áður að takast á við stríðið.“