fbpx
Fimmtudagur 24.apríl 2025
Fréttir

Linda ósátt við umfjöllun Kompáss um Smárakirkju – „Æsifréttamennskan látin hafa yfirhöndina“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 9. mars 2022 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Linda Baldvinsdóttir, markþjálfi og rithöfundur, er afar ósátt við umfjöllun þáttarins Kompás á Stöð 2 um Smárakirkju. Í þættinum steig fram fólk sem sagði farir sínar ekki sléttar af samskiptum við sértrúarsöfnuði á Íslandi. Linda telur að í umfjöllun þáttarins um Smárakirkju hafi æsifréttamennska orðið rannsóknarblaðamennsku yfirsterkari.

Í þættinum steig Steinunn Anna Radha fram og lýsti ofbeldi sem hún varð fyrir af hendi leiðtoga innan Smárakirkju. Í samantekt Vísis um þáttinn segir:

„Fordómar gegn samkynhneigð og ótti við syndina er alltumlykjandi í kristilegum sértrúarsöfnuðum og þar var Smárakirkja engin undantekning. Kynlíf fyrir hjónaband og sambönd samkynhneigðra var meðal þess sem var predikað sem syndugt í kirkjunni. Steinunn er sjálf samkynhneigð og segir að því hafi verið tekið mjög illa innan kirkjunnar.

„Unglingaleiðtoginn í kirkjunni tók mig í gólfið, knésetti mig og stóð ofan á maganum á mér til að reka út djöflana sem áttu að gera mig samkynhneigða. Hann sagðist sjá það í augunum á mér að það væru bara djöflar þarna inni.”

Árásin átti sér stað fyrir framan fimm aðra unglinga í kirkjunni. „Þetta var mjög vont,” segir Steinunn. „En ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ég fraus bara, eins og er þekkt að gerist þegar maður verður fyrir ofbeldi.“

Það loðaði við Steinunni að hún væri syndug sökum kynhneigðar sinnar. Og ekki bætti úr skák að hún væri með dekkri húð. Og það sem verra er, þá trúði hún því sjálf.

„Það sem annað fólk sagði við mig stjórnaði mér algjörlega. Þegar maður er þetta fastur, eins og ég var á þessum tímapunkti, þá er þetta bara sannleikurinn.“

En ofbeldið náði líka út fyrir veggi kirkjunnar. Hún var beitt alvarlegu kynferðisofbeldi ítrekað í heilt ár, af sama unglingastarfsleiðtoga og ætlaði að reka úr henni andana sem gerðu hana samkynhneigða. Hann bauð Steinunni reglulega heim til sín og braut á henni þar.

„Hann lét mér líða eins og ég væri sérstök. Og misnotaði mig þar yfir heilt ár. En ég kærði, vann málið og hann var dæmdur.““

Segir lýsinguna fáránlega og ósanna

Linda gagnrýnir harðlega þessa lýsingu og umfjöllun í opinni færslu sem hún birti á Facebook-síðu sinni. Þar kemur fram að forstöðukona safnaðarins, Sigurbjörg Gunnarsdóttir, er vinkona hennar. Segir Linda að upplýsingar vanti í umfjöllunina sem geri hana villandi og litaða æsifréttamennsku. Segir hún að þverfaglegt ráð kirkjunnar hafi stutt Steinunni alla leið:

„Skelfilegt hvað rannsóknarblaðamennskan er á lágu plani hér á landi og hvað dómharkan sem kom fram í þættinum Kompási um “sértrúarsöfnuði” á Íslandi var á lágu og fordómafullu plani. Í þessum þætti kom fram ung stúlka sem lýsti veru sinni í Smárakirkju hjá Sibbu vinkonu minni á fáránlega ósannan hátt. Henni láðist þó blessaðri að segja frá því að unglingaleiðtoginn var látinn hætta vegna gamaldags stjórnunarhátta hans eftir stutt stopp í kirkjunni og henni láðist einnig að segja frá því að forstöðumaður kirkjunnar hafi kallað saman þverfaglegt ráð kirkjunnar þegar málið kom upp og studdi síðan stúlkuna í gegnum allt ferlið og bar meira að segja vitni fyrir hana fyrir dómstólum. Ekki voru dómsskjöl skoðuð né talað við stjórn kirkjunnar við gerð þáttarins heldur æsifréttamennskan látin hafa yfirhöndina eins og títt er í dag.“

Ennfremur segir Linda að tal Steinunnar um fordóma Smárakirkjusafnaðarins gegn samkynhneigðum eigi ekki við rök að styðjast og þarna sé verið að rugla söfnuðinum saman við Krossinn. Segir hún að frásögnin sé svo ljót og rætin að Smárakirkja ætti að kæra umfjöllunina:

„Eins gat ég nú ekki annað en hlegið þegar kirkjan var ásökuð um hatur gegn samkynhneigðum og þar ruglað saman við gamla Krossinn sem er löngu dauður og grafinn og starfaði á allt öðrum grunni en nú er. Og ég hló af öllu hjarta þegar stúlkan talaði um að ekki mætti hafa Tattoo og að litarháttur skipti máli í kirkjunni þar sem nokkrir af bestu vinum Sibbu eru nú þelþökkir aðilar. Nei þetta var rætin frásögn og virkilega ljót blaðamennska og í raun ætti að kæra svona aðför og draga blaðamennina fyrir dóm fyrir lygar og lélega upplýsingasöfnun.“

Á hinn bóginn lætur Linda þess getið að hún viti að frásagnir um trúfélagi Frelsið sem komu fram í þættinum séu sannar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fer ekki neitt í sumar
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Miklar breytingar framundan á fréttatímum RÚV

Miklar breytingar framundan á fréttatímum RÚV
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Hornfirðingar ósáttir við verslun Nettó á Höfn – „Þetta var ansi sorgleg búðarferð í dag“

Hornfirðingar ósáttir við verslun Nettó á Höfn – „Þetta var ansi sorgleg búðarferð í dag“
Fréttir
Í gær

Lögregla varar við svikum – „Textinn er áhugaverður svo ekki sé meira sagt“

Lögregla varar við svikum – „Textinn er áhugaverður svo ekki sé meira sagt“
Fréttir
Í gær

Pútín lætur reyna á NATÓ við finnsku landamærin

Pútín lætur reyna á NATÓ við finnsku landamærin
Fréttir
Í gær

Guðmundur fær ekki 670 þúsund krónur endurgreiddar sem svindlarar stálu af kreditkorti hans – „Óréttlætið hefur haft betur að mínu mati“

Guðmundur fær ekki 670 þúsund krónur endurgreiddar sem svindlarar stálu af kreditkorti hans – „Óréttlætið hefur haft betur að mínu mati“
Fréttir
Í gær

Íbúar og fyrirtæki í miðborginni hvött til að plokka á laugardag

Íbúar og fyrirtæki í miðborginni hvött til að plokka á laugardag
Fréttir
Í gær

Berfætt kona í kjól hneykslaði við Gljúfrabúa – „Þetta er svo mikil óvirðing gagnvart náttúrunni og öðru fólki“

Berfætt kona í kjól hneykslaði við Gljúfrabúa – „Þetta er svo mikil óvirðing gagnvart náttúrunni og öðru fólki“
Fréttir
Í gær

Svona notuðu svikarar Netflix til að hafa rúmar 300 þúsund krónur af óvarkárum Íslendingi

Svona notuðu svikarar Netflix til að hafa rúmar 300 þúsund krónur af óvarkárum Íslendingi