Ingvar Arnarsson bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans birtir ítarlegar myndir og myndbönd af þeim mikla vatnselg sem var við nýja knattspyrnuhöll í Garðabæ í gær.
Miðgarður, fjölnota íþróttahús í Garðabæ var opnað á dögunum í Vetrarmýri. Mikið vatn safnaðist saman við húsið í gær og með þeim afleiðingum að það lak inn í húsið.
„Hrikalegt að sjá þetta í nýja knatthúsinu okkar, Miðgarði. Vonandi verða skemmdirnar ekki miklar,“ segir Ingvar á Facebook síðu sinni þar sem hann birtir myndir og myndbönd.
Heildarkostnaður við verkið var um fjórir milljarðar íslenskra króna og er þetta ein stærsta framkvæmd sem Garðabær hefur ráðist í.
Mikil úrkoma hefur verið á landinu síðustu daga og virðist það vera að hafa sín áhrif, meðal annars á Miðgarð en óvíst er hversu miklar skemmdirnar eru.