Þetta sést á myndbandsupptöku, sem er hægt að sjá hér fyrir neðan, sem hefur gengið á samfélagsmiðlum að undanförnu. Þar var Radio Free Europe (RFE) sem birti upptökuna fyrst. Á henni sjást heit orðaskipti á milli Tsivilyov, héraðsstjóra í Kemerovo, og íbúa í borginni Novokuznetsk.
„Þeir lugu að öllum, þeir blekktu alla . . . Af hverju sendir þú þá þangað?“ spyr kona ein og bætir við að hermennirnir hafi haldið að þeir væru að fara á æfingu í Hvíta-Rússlandi. „Þeir vissu ekki hvert markmiðið var . . . Þeir voru sendir sem fallbyssufóður,“ bætir hún við.
Héraðsstjórinn ber þó ekki ábyrgð á að lögreglumennirnir hafi verið sendir til Úkraínu. The Guardian segir að það sé ákvörðun sem hafi verið tekin af þjóðvarðliðinu sem er undir beinni stjórn Vladímír Pútín forseta.
RFE segir að orðaskakið hafi átt sér stað á laugardaginn í þjálfunarskóla óeirðalögreglunnar. Sumir liðsmenn hennar féllu í Úkraínu og aðrir voru handsamaðir af úkraínska hernum.
Eftir því sem stríðið hefur dregist á langinn hafa sífellt fleiri ættingjar hermanna, sem hafa fallið eða verið handsamaðir af úkraínska hernum, látið andstöðu sína við stríðið í ljós og segja að ástvinum þeirra hafi ekki verið sagt fyrir fram að til stæði að ráðast inn í Úkraínu. Myndbönd af rússneskum hermönnum sem hafa verið handsamaðir af Úkraínumönnum bendi einnig til þess að hermennirnir hafi ekki fengið að vita hvað stóð til.
Rússnesk yfirvöld segja að um 500 rússneskir hermenn hafi fallið í Úkraínu en úkraínsk yfirvöld segja að þeir séu rúmlega 11.000.
Á myndbandsupptökunni heyrist Tsivilyov verja innrásina og segja að „ekki eigi að gagnrýna“ hana.
The Guardian ræddi nýlega við ættingja rússnesku leyniskyttunnar Leonid Paktishev, sem er í haldi Úkraínumanna, og létu þeir í ljós reiði sína yfir að hann hefði verið sendur í stríð. „Ungum strákum er hent þarna eins og fallbyssufóðri. Af hverju? Fyrir hallir í Gelendzhik?“ sagði einn ættinginn og vísaði þar til glæsihallar við Svartahaf sem Pútín er sagður eiga.