Hér fyrir neðan verður stiklað á helstu atburðum næturinnar og nýjar fréttir settar inn þegar þær berast.
Uppfært klukkan 07.36 – Heineken ætlar að hætta starfsemi í Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu.
Uppfært klukkan 07.12 – Rússnesk yfirvöld segjast hafa sannanir fyrir að Úkraína hafi haft í hyggju að ráðast á Donbass, sem er hérað í austurhluta landsins en aðskilnaðarsinnar og Rússar hafa haft það á sínu valdi síðan 2014. Þau birtu skjöl þessa efnis en þau eru á úkraínsku. Ekki hefur verið staðfest hvort um fölsuð skjöl eða ekta er að ræða að sögn Sky News.
Uppfært klukkan 06.31 – Breska varnarmálaráðuneytið segir að úkraínski herinn hafi staðið sig vel í að skjóta rússneskar herflugvélar niður og að það hafi væntanlega komið í veg fyrir að Rússar hafi náð yfirráðum í lofti.
Uppfært klukkan 06.16 – Breska ríkisstjórnin hefur kynnt nýjar refsiaðgerðir gegn Rússum sem loka fyrir allt flug rússneskra flugvéla í breskri lofthelgi. Hafa yfirvöld nú heimild til að leggja hald á rússneskar flugvélar sem brjóta gegn þessu banni.
Uppfært klukkan 05.57 – Rússneski herinn ætlar að vera með vopnahlé í nokkrum úkraínskum borgum frá klukkan 7 að íslenskum tíma. Með þessu á að gefa óbreyttum borgurum tækifæri til að yfirgefa borgirnar.
Uppfært klukkan 05.10 – Úkraínsk stjórnvöld bjóða þeim útlendingum sem koma til landsins til að berjast gegn Rússum að fá úkraínskan ríkisborgararétt ef þeir vilja. Fulltrúi ríkisstjórnarinnar tilkynnti þetta í morgun.
Uppfært klukkan 04.29 – Rússneskt efnahagslíf er undir svo miklu álagi vegna refsiaðgerða Vesturlanda að hætta er við að ríkissjóður fari fljótlega í greiðslustöðvun. Þetta er mat greiningarfyrirtækisins Fitch sem lækkaði lánshæfismat Rússland niður í C í gærkvöldi. Það er lægsti flokkurinn hjá fyrirtækinu og þýðir að fyrirtækið telur að greiðslustöðvun ríkissjóðs sé yfirvofandi.
Uppfært klukkan 04.04 – Coca-Cola hefur tilkynnt að fyrirtækið hætti starfsemi í Rússlandi. Áður höfðu McDonald‘s, Starbucks og Pepsi ákveðið að hætta starfsemi í landinu.
Uppfært klukkan 04.03 – Úkraínuher segist hafa fellt rúmlega 11.000 rússneska hermenn en rússnesk yfirvöld hafa staðfest að um 500 rússneskir hermenn hafi fallið.
Uppfært klukkan 04.02 – Tekjur Norðmanna af sölu á olíu og gasi geta allt að sexfaldast á árinu vegna stríðsins í Úkraínu.
Uppfært klukkan 04.01 – Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hefur misst sambandið við kjarnorkuverið í Tjernobyl. Það er á valdi rússneskra hersveita. Þetta þýðir að stofnunin hefur ekki aðgang að gögnum frá verinu.
Uppfært klukkan 03.59 – SÞ segja að 474 óbreyttir borgarar hafi látist í stríðinu fram að þessu og 861 særst.
Uppfært klukkan 03.57 – Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, taldi að rússneskar hersveitir myndu ná Kyiv á sitt vald á tveimur dögum. Þetta sagði William Burns, yfirmaður CIA, í yfirheyrslu hjá bandarískri þingnefnd í gær. Hann sagði einnig að Pútín sé líklega reiður og pirraður núna út af litlum árangri rússneska hersins og muni tvöfalda herlið sitt í Úkraínu og reyna að brjóta úkraínsku varnarsveitirnar niður án þess að taka tillit til óbreyttra borgara. BBC skýrir frá þessu.
Uppfært klukkan 03.57 – Í gær tókst að koma 5.000 óbreyttum borgurum frá Sumy í norðurhluta Úkraínu. Aðallega er um konur og börn að ræða auk erlendra ríkisborgara að sögn úkraínskra yfirvalda. Harðar árásir hafa verið gerðar á Sumy síðustu daga og er borgin næstum sambandslaus við restina af Úkraínu. 21 lést í loftárásum Rússa á borgina á mánudagskvöldið að sögn CNN.