Eins og staðan er núna er fátt sem bendir til að blóðbaðinu linni á næstunni. Í gær sagði talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar að Rússar séu reiðubúnir til að hætta aðgerðum sínum samstundis ef Úkraínumenn ganga að kröfum þeirra. Meðal þeirra eru að Úkraína viðurkenni að Krím tilheyri Rússlandi og viðurkenni sjálfstæði Donetsk og Luhansk en það eru þau héruð í austurhluta Úkraínu sem aðskilnaðarsinnar og Rússar hafa haft á valdi sínu síðan 2014. Þeir krefjast þess einnig að stjórnarskrá Úkraínu verði breytt á þann veg að kveðið verði á um algjört hlutleysi landsins og þar með lokað á hugsanlega aðild þess að NATO.
En eru ummæli talsmanns rússnesku ríkisstjórnarinnar í gær merki um að Pútín sé farinn að leita leiða til að binda enda á stríðið? Hvaða möguleika á hann í stöðunni?
Reynt var að svara þessu í umfjöllun Sky News þar sem rætt var við Dr. Chris Tuck, sem er sérfræðingur í öryggis- og deilumálum, hjá King‘s College London.
Hann sagði að Rússum gangi illa við stríðsreksturinn. Þetta hafi átt að vera hröð aðgerð sem tæki skamman tíma. Hins vegar hafi þeir fengið stríð ólíkt því sem þeir áttu von á og hafi ekki verið undir það búnir. Þvert á það sem Pútín segi þá gangi stríðsreksturinn ekki eins og Rússar ætluðu í upphafi.
Hann sagði að þessi vandræði Rússa megi að hluta rekja til mótstöðu Úkraínumanna og að hluta til Pútín. Á Vesturlöndum sé tilhneiging til að líta á Pútín sem hinn fullkomna herstjórnarsnilling en í tilfelli Úkraínu hafi honum orðið á mistök. Hann hafi talið að úkraínskur almenningur myndi líklega bogna fljótt þegar Rússar sýndu mátt sinn og myndi í raun ekki vera svo áhugasamir um að viðhalda sjálfstæðu stjórnkerfi sem hallast að Vesturlöndum frekar en Rússlandi. „Ég held að það sé augljóst að skilningur (Rússa, innsk. blaðamanns) á Úkraínu og úkraínskum stjórnmálum sé í raun mjög takmarkaður,“ sagði hann.
Hvað varðar leiðir Pútín út úr þessum ógöngum sagði hann að hann hafi nú um þrjár leiðir að velja.
Leið 1 – Að herða hernaðaraðgerðirnar og þar með hugsanlega að nota efnavopn eða kjarnorkuvopn. Tuck sagði að nú þegar hafi sést merki um að rússneski herinn sé að herða aðgerðir sínar, mun harðari skotárásir séu gerðar. Hann sagðist telja að notkun efnavopna eða kjarnorkuvopna sé ekki uppi á borðinu. Ástæðan sé að innrásin var réttlætt með að Rússar og Úkraínumenn væru „ein þjóð“. Pútín sé enn að reyna að viðhalda þeirri lygi að meirihluti Úkraínumanna sé hlynntur Rússum.
Hann sagði að ef Rússar fara þá leið að herða árásir sínar og stríðsrekstur enn frekar þá muni það reynast þeim mjög erfitt og það muni hafa víðtækar pólitískar afleiðingar. Hann sagði að ef Rússar ráði Volodymyr Zelenskyy, Úkraínuforseta, af dögum geti það unnið gegn þeim. Mörg dæmi séu um að þegar leiðtogar séu felldir þá taki mun róttækari leiðtogar við. „Ég held að það að drepa Zelenskyy gæti enn frekar eflt mótspyrnu Úkraínumanna,“ sagði hann.
Leið 2 – Áframhaldandi kæfingaráætlun. Í henni felst það sem Rússar eru nú að reyna að gera. Að umkringja þær borgir og bæi þar sem andspyrnan er mest og vonast þannig til að með því dragi úr baráttuvilja Úkraínumanna. Það megi líkja þessu við það þegar kyrkislanga kæfi fórnarlömb sín.
Leið 3 – Að semja um frið. Tuck sagði að sú leið sé ólíkleg eins og staðan er núna því Pútín hafi lagt svo mikla pólitíska áherslu á að árangur náist með hernaðinum. Það að fallast á eitthvað minna en allar kröfur hans muni verða mikið högg fyrir orðstír hans og um leið andlegt áfall fyrir hann.