fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Hungurhæðir doktor Lindu – Hryllingurinn á heilsuhæli dauðans

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Fimmtudaginn 10. mars 2022 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dr. Linda Hazzard var enginn læknir þrátt fyrir að titla sig sem slíkan. Hún var fædd árið 1867 Minnesota, giftist 18 ára og eignaðist tvö börn. Árið 1898 yfirgaf hún mann og börn, flutti til Minneapolis og hóf að auglýsa sig sem ,,heilara” sem gæti læknað alla sjúkdóma milli himins og jarðar með föstum. Fyrsti sjúklingurinn er talinn hafa dáið árið 1902, en hann svalt í hel í hennar umsjón. Þegar ættingjar komu eftir líkinu voru bæði dýrmætir skartgripir og stórfé í eigu sjúklingsins, horfin.

Linda um það leiti sem hún opnaði ,,heilsuhælið“

Hjónaband andskotans

Linda hitti næsta eiginmann sinn fljótlega, Samuel Christman Hazzard, vel þekktan svikahrapp, drykkjubolta og kvennabósa sem hafði ekki haft fyrir að skilja við síðustu eiginkonuna þegar hann játaðist Lindu. Honum var húrrað í steininn fyrir tvíkvænið en Linda beið eftir honum og  héldu þau til Seattle þar sem þau keyptu jörð við smábæinn Olalla. Lindu dreymdi um að byggja þar heilsuhæli og Sam átti peniningana. 

Fasta læknar allt

Vegna smugu í löggjöf Washington fylkis tókst Lindu að að fá starfsleyfi til að stunda óhefðbundnar lækningar, án þess þó að þurfa að leggja fram nein gögn þess efnis að hún hefði menntun eða hæfni á því sviði. Linda gaf sjálf út nokkrar bækur þar sem predikaði kenningar sínar um að alla sjúkdóma mætti rekja til fæðu. Fasta gat læknað allt frá tannpínu til berkla. 

Kenningar um föstur og hreinsanir voru vinsælar á þessum árum. Heilsuhælið var reyndar lítið annað hús þeirra hjóna svo og kofar hist og her um landareignina g var sjúklingum ýmist komið fyrir þar eða í íbúðum í Seattle.

Sam var þekktur svindlari en sat á nægu fé

Hungurhæðir

Heilsuhælið gekk aftur á móti  undir nafninu Hungurhæðir meðal íbúa Olalla sem urðu vanir því að rekast á grindhorað fólk skjögra eftir veginum frá hælinu, grátbiðjandi um mat. Dvölin fólst í endalausum föstum þar sem sjúklingarnir fengu aðeins örfáar matskeiðar af grænmetissoði á dag. Þeir þurftu einnig að þola dagleg stólpípu, sjóðandi heit böð og og kröftug nudd af hendi Lindu. Harkan í nuddinu var slík að starfsfólk hælisins sagði það meira hafa minnt á barsmíðar. Neyðarópin við nuddið skáru í eyrun. 

Eðli málsins samkvæmt  dó fjöldi fólks við ,,meðferðina”. Fyrsta þekkta fórnarlambið var Daisey Maud Haglund, 38 ára gömul kona sem lést í febrúar 1908 eftir 50 daga föstu. 

Fórnarlömbin

Williamson systurnar áður en þær voru svo ógæfusamar að hitta doktor Lindu

Fólk hrundi niður í umsjón Lindu. Ida Wilcox lést einnig 1908 og Blanche B. Tindall og Viola Heaton árið 1909. Frú Maude Whitney lést árið 1910 og verkfræðingurinn Earl Edward Erdman dó úr hungri árið 1911.  Frank Southard, var vel þekktur lögfræðingur sem lést í umsjón Lindu, svo og CA Harrison, sterkefnaður útgefandi. Báðir höfðu þeir greitt Lindu stórfé fyrir ,,meðferðina” Nokkrum mánuðum seinna lést Ivan Flux, Englendingur sem hafði komið til Bandaríkjanna með mikið fé til að fjárfesta í búgörðum. Hann lést eftir 53 daga föstu á hælinu en á þeim tima tókst Lindu að fá hann til að veita sér yfirráð yfir öllum hans eigum.

Mynstrið var hið sama. Sjúklingar sóttu um dvöl á hælinu og greiddu stórfé fyrir auk þess sem margir færðu eigur sínar yfir á nafn Hazzard hjónanna. Linda skrifaði sjálf undir flest dánarvottorðin og kom hungur þar aldrei við sögu. Talið er að að minnsta kosti 12 manns hafi soltið í hel í meðferðinni. 

Heilbrigðisyfirvöldum var nóg boðið en gátu lítið gert þar sem Linda hafði opinbert lækningaleyfi og sjúklingarnir leituðu til hennar sjálfviljugir. Hún hafði enn fjölda stuðningsmanna og fyrrverandi sjúklingar, sem lifað höfu af,  voru of brotnir og hræddir við þau skötuhjú til að stíga fram. 

Bresku systurnar

Bresku systurnar Dorothea og Claire Williamson voru ríflega þrítugar, ógiftar og forríkar. Þær nutu þess að ferðast og þegar þær voru staddar á glæsihóteli í Bresku Kólumbíu rákust þær á bækling frá ,,Náttúrulækningastofnun” Lindu. Systurnar voru ekki alvarlega veikar en þjáðust af minniháttar kvillum, Dorothea kvartaði undan gigt og bólgnum kirtlum en Claire hafði sigið leg sem angraði hana. Báðar voru þær miklir fylgismenn þess sem í dag er almennt kallað ,,óhefðbundnar lækningar” , höfðu hætt að borða kjöt og gengu ekki í korsettum eins og hefð var fyrir meðal heldri kvenna. Fjölskylda systranna fyrirleit sérvisku þeirra og létu þær því engan vita þegar þær leituðu á náðir Lindu Hazzard í þeirri von að heilnæmt grænmetisfæði ásamt fersku sveitaloftinu myndi laga kvilla þeirra. 

Með óráð af hungri

Í febrúar 1911 heimsóttu þær Lindu sem sagði aðstöðu fyrir þær systur ekki vera til staðar á heilsuhælinu. Aftur á móti myndi hún koma þeim fyrir í íbúð í Seattle og hefja þar meðferð.  Williamson systurnar fluttust inn í íbúðina ásamt starfsmanni sem Linda réð til að sjá um systurnar. Fyrirmælin voru ströng: Þær fengu tvö bolla af seyði úr niðursoðnum tómötum hvern dag, annan að morgni, hinn að kveldi. Linda kom reglulega í íbúðina til að gefa þeim stólpípu og nuddin skelfilegu. Hún sýndi fjármálum þeirra mikinn áhuga og bauðst til geyma skartgripi, hlutabréf og önnur verðmæti systranna á skrifstofu sinni á heilsuhælinu. Þegar þarna var komið við sögu voru systurnar um 30 kíló og oft með óráði af hungri. 

Dorothea Williams rétt eftir lausnina úr hryllingskofa Lindu

Hárlaus, tannlaus og kvalin

Í apríl voru systurnar orðnar svo veikar að Lindu stóð ekki á sama og lét flytja þær á heilsuhælið með leynd.  Rétt áður en sjúkrabíllinn flutti þær barst lögfræðing þeirra bréf með illlæsilegri undirskrift þar sem Claire fór fram á að það yrði sett í erfðaskrá hennar að heilsuhæli Lindu Hazzard fengi eigur hennar við andlát hennar.

Þann 30. apríl bar fóstru systranna, Margaret Conway, skeyti sem var afar ruglingslegt en þó skildi Margraret að systurnar væru fangar konu að nafni Linda Hazzard í Olalla.  Margaret var í Ástralíu en fór þegar um borð í næsta farþegaskip til Bandaríkjanna. Hún kom til Seattle 1. júní og fór beinustu leið á skrifstofu Lindu, sem var klædd uppáhalds silkikjól Claire auk þess að vera með skartgripi hennar og hatt. Linda kvaðst Claire vera dána en Dorothea væri orðið geðveik.  Linda hafði náð að láta skipa sig skiptastjóra dánarbús Claire og fjárhaldsmann Dorotheu og hafði því öll tromp á hendi.  Margaret krafðist þess að sjá lík Claire og var sýnt kvenmannslík sem var það illa farið að Margaret gat ómögulega sat til um hvort um Claire var að ræða. Því næst fór hún fram á að hitta Dorotheu og varð fyrir gríðarlegu áfalli þegar hún var leidd á fund konu sem var rúmlega 20 kíló, hárlaus, tannlaus og svo kvalin að hún gat hvorki setið né staðið.

Margaret borgar og borgar

Dorothea bjó þá í óupphituðu kofaræksni á landi Lindu. Dorothea grátbað Margaret um að hjálpa sér að sleppa en skipti um skoðun daginn eftir og kvaðst vilja halda áfram meðferðinni hjá Lindu. Margaret settist að í kofanum, reyndi að smygla inn mat og gerði hvað sem hún gat til að ná Dorotheu út. Linda var fjárhaldsmaður og löglega skipaður umönnunaraðili Dorotheu og Margaret gat lítið annað gert en að nema moka meira fé í Lindu sem alltaf dró í land með frelsi Dorotheu. Margaret var einnig logandi hrædd við Hazzard hjónin sem virtust get náð allt að óútskýranlegu valdi á fólki. Þegar þarna var komið voru bankainnistæður Williamson systranna tómar og afar verðmætt skartgripasafn þeirra horfið. Þegar Margaret gat ekki greitt meira hafði hún samband við frænda þeirra systra sem fór til Bandaríkjanna og samdi um að greiða þúsund pund gegn frelsun Dorotheu. 

Linda á efri árum

Linda hefði eflaust haldið glæpum sínum áfram ef breski konsúllinn hefði ekki frétt af lausnargjaldi frændans. Bresk yfirvöld kröfðu þau bandarísku um rannsókn sem leiddi í ljós fjölda dauðsfalla einstaklinga sem höfðu látið allt sitt fé í hendur Hazzard hjónanna.

Endalok Lindu

Þann 15. ágúst 1911 var Linda Hazzard handtekinn og ákærð fyrir morðið á Claire Williamson. Starfsfólk heilsuhælisins bar vitni um þjáningar systranna, hungrið, stólpípurnar og sjóðandi heit böðin. Ennfremur voru lögð fram skjöl sem sýndu svart á hvítu hvernig Linda hafði með fölsunum og hótunum haft allar eigur af þeim systrum. Linda neitaði alfarið ábyrgð og lögfræðingar hennar vísuðu til þess að Linda hefði einfaldlega verið að fylgja árþúsunda hefð. Forngrikkir, indverskir jógar og jafnvel Jesú Kristur hefðu stundað föstur. Kviðdómur gaf lítið fyrir það og var Linda dæmd fyrir manndráp. Meðan að kviðdómur ákvað sig létust tveir sjúklingar til viðbótar á heilsuhælinu. Linda sat ekki lengi inni því aðeins tveimur árum síðar var hún náðuð af ríkisstjóra Washington fylkis. Hún flutti til Nýja Sjálands en sneri aftur til Bandaríkjanna og byggði veglega heilsuhælið sem hana hafði dreymt um í Olalla árið 1920 þar sem hún hélt áfram að predika föstur. Árið 1935 brann heilsuhælið til grunna. Þá var heilsu Lindu farið að hraka og greip hún til þess ráðs sem hún þekkti hvað best og hóf föstu til að bæta líðanina.

Eins kaldhæðnislegt og það nú er þá svalt Linda Hazzard til bana árið 1938. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár