Jón Benjamín Þórðarson, er sjúkraflutningamaður af íslenskum ættum, sem nú er mikið í fréttum í bresku pressunni eftir hetjulega björgun um borð í farþegavél frá Gran Canaria til England.
Maður að nafni Terry Porter fékk hjartaáfall um borð í vélinni og ekkert sjúkralið var tiltækt. Jón framkvæmdi hjartahnoð á manninum og beitti auk þess hjartastuðtæki sem var í vélinni og gaf honum rafstuð sex sinnum með tækinu, að því er kemur fram í frétt Mirror.
Jón bjargaði lífi Terry Porter (ranglega kallaður „Potter“ í frétt Mirror) með sínu snögga inngripi og var Terry búinn að ná sér eftir áfallið sex dögum síðar.
Jón starfar hjá Yorkshire Ambulance Service sem sjúkraflutningamaður og hefur hann mörgum sinnum í starfi sínu bjargað fólki eftir hjartaáfall. Hann segist hins vegar aldrei hafa lent í því utan vinnunnar áður.
Í samtali við DV segir Jón að afi hans og amma séu frá Íslandi en hann hafi fæðst á Englandi. Segist hann hafa komið til Íslands síðast fyrir tíu árum.
Terry er afar þakklátur Jóni fyrir lífgjöfina. „Ég væri ekki hér ef hann hefði ekki stigið inn og tekið stjórnina,“ segir Terry við Mirror. Hann segir ennfremur:
„Að sjálfsögðu er ég þakklátur Jóni fyrir að hafa verið til staðar og ekki aðeins fært mér annað tækifæri í lífinu heldur endurvakið trú mína á fólki.“
Myndin sem fylgir er frá Jóni og birt með góðfúslegu leyfi hans. Hún sýnir þá félaga á góðri stund fyrir skömmu, Terry orðinn brattur og búinn að ná sér eftir hjartaáfallið. Fengu félagarnir sér drykk saman.