Þetta eru spurningar sem reynt var að svara á vef Norska ríkisútvarpsins um helgina með aðstoð Tor Bukkvoll, sem er sérfræðingur hjá rannsóknarstofnun norska hersins. Hann dró upp fimm sviðsmyndir sem hann telur að geti komið til greina um þróun stríðsins.
Skammvinnt stríð er ein þeirra. Í því felst að Rússar munu herða árásir sínar og hersveitir þeirra ná höfuðborginni Kyiv á sitt vald innan nokkurra daga. Þeir ná einnig yfirráðum yfir stærstum hluta landsins í kjölfarið. Þetta er að mati Bukkvoll sú sviðsmynd sem Rússar töldu að myndi eiga við en nú sé orðið vafasamt að þeir vinni skjótan sigur.
Langvinnt stríð er annar möguleiki að hans mati. Í því felst að staðan verður óljós nema hvað Rússar sigra ekki en tapa heldur ekki. Rússneskar hersveitir muni eiga í erfiðum bardögum í Kyiv og víðar. Þá geti staðan verði sú að Úkraínumenn geti komið í veg fyrir sigur Rússa í stríðinu. Eftir því sem tíminn líði muni úkraínskar hersveitir á herteknum svæðum skipta yfir í skæruhernað og ráðast á birgðaflutningaleiðir Rússa. Bukkvoll sagðist telja að þetta geti endað með að Rússar telji sig ekki eiga neina aðra kosti en sprengja innviði landsins. Það geti valdið mikilli eyðileggingu, svipað og gerðist í Tsjetsjníu þegar Rússar lögðu höfuðborgina Grosní í rúst á tíunda áratugnum.
Fleiri ríki dragast inn í stríðið er möguleiki sem ekki er hægt að útiloka að hans mati. Hann sagði að þrjár atburðarrásir geti orðið til þess að svo fari. Sú fyrsta er að Rússar ráðist á önnur ríki, til dæmis Eystrasaltsríkin eða Pólland. Nú séu vopn send til Úkraínu í gegnum Pólland og Pútín geti talið þetta sem aðgerðir óvina. Hann sagði að þetta væri frekar ólíklegt því Rússar séu nú með nær allan tiltækan herafla sinn í Úkraínu og vandséð sé að þeir ráði við stríð á öðrum vígstöðvum. Önnur leið er að NATO-ríkin grípi inn í, til dæmis með því að setja upp flugbannssvæði yfir Úkraínu. Ekki sé hægt að útiloka að gripið verði til þess vegna þrýstings frá almenningi vegna hræðilegra mynda sem berast frá Úkraínu. Þriðji möguleikinn er að fleiri dragist inn í stríðið fyrir mistök. Óhöpp geti orðið í yfirstandandi stríðsrekstri og það geti leitt til þess að fleiri blandi sér í stríðið.
Pútín verður steypt af stóli er ein möguleg sviðsmynd að mati Bukkvoll. Hann sagði að ekki sé að sjá að það sé að fara að gerast á næstunni en ekki sé hægt að útiloka þann möguleika að annað hvort geri almenningur uppreisn og steypi honum af stóli eða þá að elítan, þar á meðal liðsmenn leyniþjónustustofnana, blandi sér í málin og steypi honum af stóli. Ekki sé hægt að útiloka að bæði komi til mótmæla almennings og uppreisnar elítunnar og það muni leiða til þess að Pútín verði steypt af stóli.
Fimmta sviðsmyndin er að Rússland og Úkraínu semji um frið. Hann sagði að svo lengi sem fulltrúar ríkjanna ræðist við sé ekki hægt að útiloka að samningar náist um frið.