Natashja, skáld og bóksali, var meðal gesta í Silfrinu í dag og sagði að það sé erfitt að vera frá Rússlandi í dag. Margir Rússar upplifi nú skömm út af innrás lands þeirra í Úkraínu en á sama tíma séu margir í afneitun.
„Ég meina það er mjög erfitt að vera hér og sjá allt þetta. Bæði því ég á marga vini frá Úkraínu, einn náinn vinur minn er frá Mariupol. Hann hefur ekki heyrt frá systur sinni í fjóra daga og það er ekkert internet, svo hann getur ekki hringt í neinn. Allir eru bara í áfalli. Og ég sé líka að margir rússneskir vinir mínir eru hættir að tala við foreldra sína,“ sagði Natashja.
Hún segir að sjálf eigi hún erfitt að tala við sína eigin foreldra sem fylgist með stríðinu í gegnum rússneska fjölmiðla, en í Rússlandi er nú beitt mikilli ritskoðun. Til að mynda er fjölmiðlum meinað að kalla stríðið stríð heldur gert að tala um sérstakar hernaðaraðgerðir og mega ekki byggja fréttaflutning sinn á öðrum upplýsingum en þeim sem koma frá stjórnvöldum. Samfélagsmiðlar eru einnig undir mikilli ritskoðun og er búið að loka á Facebook og Twitter svo dæmi séu tekin.
Sjálfstæðir fjölmiðlar hafa þurft að hætta fréttaflutningi ef þeir vilja ekki ganga að ströngum skilyrðum stjórnvalda því annars eiga blaðamenn yfir höfðu sér allt að fimmtán ára fangelsi fyrir að dreifa „falsfréttum“.
Natashja segir foreldra sína trúa því sem þau sjá í rússneskum fjölmiðlum. Þau telja það vera sannleikann og að Vesturlandabúar séu heilaþvegnir í að halda einhverju öðru fram út af upplýsingastríði sem sé beint gegn Rússlandi.
Natashja upplifir þó stuðning hér á landi. Hér geti einnig Rússar og Úkraínumenn studd hvert annað þó að orkan sé takmörkuð.
Natashja hefur áhyggjur af samlöndum sínum sem vilja sleppa undan stjórnvöldum í Rússlandi en hún telur ólíklegt að önnur ríki séu tilbúin að taka á móti rússneskum flóttamönnum.
„Engin mun vilja taka á móti flóttamönnum frá Rússlandi, þau hafa engan stað til að fara á.“
Hún sagðist vita til þess að þeir sem freisti þess að yfirgefa landið þurfi að svara spurningum um afstöðu þeirra til forseta landsins, Vladimir Pútíns ,og reiða fram síma sína þar sem samfélagsmiðlar, myndir, einkasamtöl og annað eru skoðuð.
Natashja segist sjálf hafa fundið fyrir skömm og veit til þess að margir Rússar finni fyrir því sama og líkir hún því við þá skömm sem Þjóðverjar fundu fyrir í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar.
„Rússland er bara cancelled og það er bara einangrun og allir hata okkur á einhvern hátt.“
Hún segir að vinir hennar frá Rússlandi fái nú þau skilaboð frá úkraínskum kunningjum þar sem þeim er óskað dauða. „Sem er mjög skrýtið að upplifa, að einhver vilji að þú deyrð þegar þú gerðir ekkert.“
RÚV greindi frá því á dögunum að dæmi séu um að rússnesk börn á Íslandi verði fyrir aðkasti vegna innrásarinnar í Úkraínu. Þar var rætt við rússneskar konur sem eru búsettar á Íslandi sem lýstu mikilli vanlíðan, en báðar eru þær á móti Pútín og stríðinu.