fbpx
Fimmtudagur 13.febrúar 2025
Fréttir

Kristel opnar sig um átakanlega ævi sína: Sorgir og sigrar – „Sökudólgurinn hefur aldrei fundist“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 5. mars 2022 09:00

Kristel í dag og sem barn með Jóni föður sínum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristel Ben Jónsdóttir er 37 ára gömul, fimm barna móðir, sjómannskona og sjálfskipuð sveitatútta frá Stöðvarfirði sem býr á Fáskrúðsfirði og starfar við umönnun og sjúkraflutninga. Hún er líka stúdent í sjúkraliðanámi. Kristel hefur alltaf komið til dyranna eins og hún er klædd og heldur meðal annars úti opnu snappi þar sem hún deilir sögum úr lífi sínu.

Misnotuð 5 ára

Kristel um fimm ára aldurinn þegar hún varð fyrir misnotkun.

Líf Kristel hefur ekki alltaf verið dans á rósum en hún hefur ávallt neitað að láta áföllin buga sig og kýs að líta fram á veginn. ,,Ég var misnotuð af nánum ættingja í nokkur skipti þegar ég var 5 ára gömul. Við vorum mikið á þessu heimili og ég dáði mömmu gerandans, sem þá var um 18-19 ára gamall. En svo hætti ég að vilja fara þangað, sem mamma furðaði sig á, en þetta bjargaðist sjálfkrafa þegar við fluttum suður.

Aðspurð um hvernig hún hafi unnið úr misnotkuninni segir Kristel sig einfaldlega hafa lokað á minningarnar. ,,Það var ekki fyrr en ég var ófrísk að minni elstu að eitthvað gerist, minningarnar byrja að poppa upp. Ég hélt að ég væri hreinlega að vera geðveik og fór til sálfræðings sem sagði að þetta væri algengt, að minningar tækju sig oft upp, til dæmis á meðgöngu.” Kristel segir að eftir á séð hafi verið ljóst að eitthvað slæmt hefði gerst. ,,Ég sé núna hvaða áhrif misnotkunin hafði. Við bjuggum í Grindavík á þessum árum og ég var bara níu ára barn þegar ég var til dæmis farin að fara í sleik, eitthvað sem barn hefur ekkert með að gera. Ég byrjaði líka að drekka um 12 ára aldurinn og var farin að sofa hjá 13-14 ára. Auðvitað var þetta afleiðing misnotkunarinnar.”

Kristel á unglingsárunum

Læddist í landabrúsana

Kristel var 12 ára þegar fjölskyldan flutti aftur austur. ,,Ég fór að fikta meira við að drekka, pabbi drakk töluvert þótt hann hefði alltaf verið ljúfur með víni og mamma hans, amma mín og hennar maður, drukku mikið. Pabbi var reyndar alltaf hörkuduglegur til vinnu, lét aldrei neitt stoppa sig og féll ekki verk úr hendi.“

,,Auðvitað markaði það mann mikið að sjá ömmu sína og afa reglulega drukkin. Ég fór að læðast í landabrúsana hans pabba og var mikið að flýta mér að fullorðnast, var til dæmis mikið með eldri krökkum. Ég var bara 14 ára þegar ég var farin að stelast á böllin í Valaskjálfi þar sem aldurstakmarkið var 18 ára. En ég var ekki það sem kalla mætti vandræðaungling, ég vildi bara prófa mörkin”

Sautján ára flutti Kristel til Reykjavíkur og hóf nám í hárgreiðslu. ,,Þá hófst mikið fjör, það var drukkið flestar helgar og þar byrjaði ég að fikta við fíkniefni.” Kristel átti einnig í erfiðum ástarsamböndum, lituðum af andlegu og líkamlegu ofbeldi, ekki síst af völdum eiturlyfjanotkunar. ,,Ég veit ekki af hverju ég laðaði að mér þessa menn,” segir Kristel og brosir, ,,en ég hef sagt skilið við þetta tímabil, búið er búið. Það hefur alltaf verið mitt mottó og haldið mér gangandi í gegnum tíðina.“

Kristel og pabbi hennar voru bestu vinir.

Þrátt fyrir djamm náði óreglan aldrei taki á Kristel sem stundaði nám og vinnu, var í líkamsrækt og stundaði fótbolta. Þegar hún var 19 ára fór hún til læknis og fékk að vita sér til mikillar undrunar að hún væri komin 6 mánuði á leið. Hún hafði ekki fundið fyrir neinum einkennum óléttu, blæðingar höfðu verið reglulegar en allt í einu sá hún fram á að verða móðir innan þriggja mánaða.

 

Óvænta óléttan

,,Ég hafði farið út á lífið helgina áður og frétti af barninu á þriðjudegi. Ég var svo hrædd um að eitthvað væri að barninu en sem betur fer var hún fullkomin. Á fimmtudegi fer ég í sónar og finn spörk í fyrsta skipti og á sunnudegi blæs ég svo út að ég sá ekki tærnar á mér. Þetta gerðist allt óskaplega hratt!“ Kristel hóf sambúð með barnsföður sínum og stóð hún í þrjú ár. ,,Sambandið var krefjandi og gat verið erfitt á stundum en við erum afar góðir vinir í dag og þau feðginin eru afar náin.”

Kristal með ömmu sinni. Fráfall hennar var henni mikið áfall.

Áföllinn voru aldrei langt undan og missti Kristel ömmu sína skyndilega á þessum árum, aðeins 63 ára að aldri. ,,Við vorum mjög nánar og fráfall hennar var okkur erfitt en pabbi fór að drekka mun minna.“

Kristel varð ólétt af eldri syni sínum sex árum eftir fæðingu dóttur sinnar en sambandið við barnsföðurinn var stirt, ekki síst vegna óreglu hans auk þess sem hann lýsti yfir efasemdum um faðerni barnsins. ,,Ég var ein i þessu. Drengurinn er reyndar alveg nákvæmlega eins og hann, eins og klón, og auðvitað sannaði DNA faðernið.”

Dýrt að vera blankur

Sonur Kristel var veikur frá fæðingu og svaf til dæmis ekki fyrstu 20 mánuðina. ,,Læknarnir fyrir austan gáfu honum bara sýklalyf en ekkert dugði. Ég reyndi að setja hann til dagmömmu en hann var of lasinn og enginn vildi ráða einstæða móður í vinnu sem alltaf var frá vegna veiks barns. Ég fékk á endanum vaktavinnu á hjúkrunardeildinni á Neskaupstað, systur mínar, mamma og pabbi pössuðu krakkana en þetta var mjög erfitt peningalega séð. Meðlög og barnabætur fóru í að greiða niður skuldir og þegar leigan var greidd var ekkert eftir. Ég man eftir að hafa staðið í eldhúsinu með tóma skápana og eiga hvorki mjólkurdreitil né þurrvöru. Ég borðaði í vinnunni, allur matur á heimilinu fór í börnin og ég bað til guðs á hverju kvöldi að dóttur minni yrði ekki boðið í afmæli.”

Um það leiti sem Kristal var byrlað og hún misnotuð.

Kristel minnist þess að hafa staðið með reikningana á milli handanna og þurfa að velja hvað yrði greitt þann mánuðinn. ,,Ég man eftir stóra rafmagnsreikningunum, þessum sem kemur eftir álesturinn. Ég bað um að fá að skipta honum en var neitað. Ég sá fram að það yrði lokað á hita og rafmagn og ég með barnið fárveikt. Þá fékk ég í fyrsta skipti kvíðakast fyrir alvöru og hafði mig upp í að hringja í systur mínar sem ásamt pabba hjálpuðu mér. Ég hafði einnig samband við kirkjuna og fékk inneignarkort í Krónuna en vandinn var að Krónan var á Reyðarfirði en ég bíllaus á Neskaupstað. Ég varð því að selja það undir kostnaðarverði til að versla í dýrari verslun í mínum heimabæ.” Kristel hristir höfuðið. ,,Það er svo svo dýrt að vera blankur.”

Erfið hringing frá presti

Kristel flutti til Akureyrar í von um að fá meiri hjálp fyrir son sinn. ,,Læknarnir þar fundu út að ónæmiskerfið í honum var ónýtt en þarna fékk hann loksins þá hjálp sem hann þurfti.”

Kristel vissi ekki af óléttunni fyrr en hún var komin 6 mánuði á leið.

Þegar drengurinn var þriggja ára fékk Kristel símhringingu frá presti á Landspítalanum þess eðlis að faðir sonar hennar væri kominn með lifrarkrabba af eiturlyfjaneyslu og lést hann hálfu ári síðar. ,,Samskiptin höfðu verið erfið en ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en þarna hvað fráfall hans hafði í raun mikil áhrif á mig, ekki síst vegna sonar míns sem þarna missti föður sinn. Ég hafði þekkt þennan mann í 12 ár, mörg þeirra erfið, en ég verð honum alltaf þakklát fyrir að hafa gefið mér þennan fallega strák”.

 

En Kristel hefur þurft að þola fleiri áföll. ,,Ég fór á árshátíð í Valaskjálf á Egilsstöðum árið 2007 en á þessum tíma bjó ég á bak við félagsheimilið. Þar býður útlendingur mér glas og eftir það man ég lítið en verið sagt að ég hafi fallið í gólfið og horfið með manni, sköllóttum í gallabuxum. Ég hef aldrei vitað hvað nákvæmlega gerðist en ég man þó greinilega eftir að sá sem keypti glasið var ekki sköllóttur.“

Kristel og Eðvarð snöppuðu frá fæðingu yngsta prinsins.

Kristel var lengi að komast til meðvitundar morguninn eftir. ,,Ég var heima hjá mér og mjög kvalin, og það var alveg ljóst að ég hafði orðið fyrir alvarlegri kynferðislegri misnotkun. Ég fór á heilsugæsluna og lögregla var kölluð til og það fannst Rohypnol í blóðinu á mér. Sökudólgurinn hefur aldrei fundist.“

Kristel er ótrúlega róleg þegar hún rifjar þessa skelfilegu árás upp. ,,Ég var lengi að jafna mig en leitaði hjálpar hjá sálfræðingi og fór suður að tala við Stígamót tveimur vikum síðar. Þetta tók á en ég er sterk, á góða að og kýs að líta fram á veginn.

Ástfangin upp fyrir haus

Kristel hefur verið með ástinni sinni,  Eðvarði Þór, í 8 ár og saman eru börnin fimm samanlagt. ,,Ég gæti ekki verið heppnari með mann. Hann var í neyslu þegar við hittumst en ég gerði honum skýrt grein fyrir að ég væri ekki tilbúinn að fara í þann pakka. Hann hringdi í mig daginn sem hann kom út af Vogi og við höfum verið saman síðan.“

Kristel hreinlega lýsist upp þegar ástin hennar kemur til umræðu. ,,Auðvitað hafa komið erfiðast stundir. Það var okkur til dæmis mikið áfall þegar tengdamamma mín dó snögglega, aðeins 58 ára gömul. Það var óskaplega erfitt að sjá manninn sinn ganga í gegnum þá sorg en við erum svo opin og náin að það heldur ástinni lifandi og kemur okkur í gegnum erfiða tíma.“

Kristel og Eðvarð ákváðu að búa lillann sinn til, það tók þau reyndar þrjú ár og var meðgangan Kristel hrein og klár skelfing. ,,Ég var svo kvalin, lífbeinið var eins og tikkandi tímasprengja, og ég va algjör martröð að búa með. Ég urraði meira að segja á minn yndislega mann því hann horfði vitlaust út um glugga!” Fæðingin var erfið og þurfti að hnoða drenginn í gang. ,,Hann var mikið eyrnarbarn og orðinn þriggja ára þegar hann svaf fyrst heila nótt. Sögðust læknarnir aldrei hafa séð aðra eins stærð á kirtlum í einu barni. Í dag er vitað að drengurinn er meðal annars með ofnæmi fyrir soja, mjólk, hnetum, melónum, kiwi og sýklalyfjum sem skýrði að stórum hluta veikindin.“ Með breyttu mataræði segir Kristel heilsu hans mun betri.

Kristel í sjúkraflutningunum.

 

Útkall að banabeði föður

Enn á ný bankaði sorgin á hjá Kristel i fyrrasumar. ,,Í júlí fæ ég útkall í endurlífgun á 57 ára karlmanni sem reyndist vera pabbi minn. Ég brunaði af stað því ég vissi að mamma hafði ekki kraft í mikla hnoðun. Ég reyndi lengi, löngu eftir að ég vissi að hann væri farinn, því ég vildi gefa mömmu þessa litlu von í stað þess að horfast í augu við hana og segja henni sannleikann, að það væri ekkert meira hægt að gera.”

Kristel segir sálfræðing hafa sagt við sig að jafnvel eitt af hennar áföllum hefði sent margan í þunglyndi, neyslu eða jafnvel yfir móðuna miklu. En hún segist aldrei gefast upp. ,,Ég á æðislegan mann, börn og fjölskyldu og stóran og flottan vinahóp. Mér líður vel í vinnu og finnst gaman í náminu. Lífið er mér að flestu leyti svo óskaplega gott. Það verður alltaf að horfa fram fram á veginn, það er ekkert annað í boð” segir Kristel Ben Jónsdóttir.

Það hægt að fylgjast með lífi Kristel á Snapchat: kristel84 og á Instagram: kristeljonsdottir

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Matvöruverð tekur stökk: Sjáðu hvaða vörur hafa hækkað og lækkað

Matvöruverð tekur stökk: Sjáðu hvaða vörur hafa hækkað og lækkað
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Mennta- og barnamálaráðherra í mál við ríkið og krefst rúmlega tíu milljóna króna

Mennta- og barnamálaráðherra í mál við ríkið og krefst rúmlega tíu milljóna króna
Fréttir
Í gær

Frumvarp lagt fram á Bandaríkjaþingi um nafnabreytingu Grænlands – „Rauð, hvít og bláland“

Frumvarp lagt fram á Bandaríkjaþingi um nafnabreytingu Grænlands – „Rauð, hvít og bláland“
Fréttir
Í gær

Ómar stefnir ríkinu og krefst þess að áminningar verði ógildar – Spurði dómara hvaða starfsmann hann ætti að reka

Ómar stefnir ríkinu og krefst þess að áminningar verði ógildar – Spurði dómara hvaða starfsmann hann ætti að reka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stefán Einar jós skömmum yfir kennara en var tekinn á teppið – „Eins og ofvirkur illa uppalinn skólastrákur“

Stefán Einar jós skömmum yfir kennara en var tekinn á teppið – „Eins og ofvirkur illa uppalinn skólastrákur“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Trump vill fá úkraínskar náttúruauðlindir í staðinn fyrir hernaðaraðstoð – Verður að hafa hraðar hendur

Trump vill fá úkraínskar náttúruauðlindir í staðinn fyrir hernaðaraðstoð – Verður að hafa hraðar hendur