fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Vera sór að verða aldrei yfirgefin – Sat í rökkri kertaljósanna og tala við látna ástmenn

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 5. mars 2022 18:30

Margir telja þetta mynd af Veru en það er ekki óumdeilanlegt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vera Renczi

Vera Renczi var fædd í Búkarest í Rúmeníu árið 1903. Foreldrar hennar komu úr efri stéttum þjóðfélagsins og ólst Vera upp við íburð á öllum sviðum. Ekkert var of gott fyrir einkadóttur Renczi hjónanna. Þegar Vera var 13 ára varð hún fyrir því áfalli að móðir hennar lést eftir stutt veikindi. Faðir hennar ákvað að skipta um umhverfi og fluttust þau feðgin til bæjar sem í dag heitir Zrenjanin og tilheyrir Serbíu. Vera var líkamlega bráðþroska, barmgóð og mittisgrönn, og mjög meðvituð um áhuga karlmanna sem hún ýtti óspart undir. Faðir Veru örvænti um að halda dótturinni á á vegi dyggðarinnar og sá engan annan kost í stöðunni en að koma henni fyrir í heimavistarskóla fyrir ungar dömur, fimmtán ára gamalli. Þar skyldi Vera nema fágun og kvenlegar dyggðir.

Skapofsi og afbrýðisemi

Von föðurins um að agi og reglufesta skólans myndi róa örlyndi dótturinnar varð fljótlega að engu því Vera stakk sí og af úr skólanum, ávallt i fylgd með nýjum og, undantekningarlaust eldri, ástmanni. Samböndin stóðu þó aldrei lengur en nokkra daga eða mesta lagi vikur,  því elskhugarnir gáfust þegar bera tók á skapofsa og afbrýðisemi Veru og létu þeir sig hverfa hið snarasta. Sneri Vera þá aftur í skólann, skólasystrum sínum til lítillar gleði vegna óútreiknanlegrar hegðunar. Auður og áhrif föður Veru náðu að bjarga skólavistinni auk þess sem faðir hennar mun hafa greitt stórfé til að þagga niður sögur af villtu lífi Veru.

Eiginmennirnir hverfa

Þegar Vera var nítján ára giftist hún efnuðum austurrískum bankamanni, Karl Schick, sem var töluvert mikið eldri en brúðurin og eignuðust þau saman soninn Lorenzo. Fljótlega eftir fæðingu sonarins rauk afbrýðissemin enn og aftur upp í Veru sem beit í sig að að bóndinn í bankanum stæði í blússandi framhjáhaldi. Greip hún til þess ráðs að setja ríflegan skammt af arseniki í kvöldverðinn hjá eiginmanninum sem lést kvalafullum dauðdaga örfáum dögum síðar. Vera útskýrði fjarveru eiginmannsins á það hátt að hann hefði yfirgefið hana og soninn til að búa með hjákonu sinni. Þegar hún hafði ,,grátið” brotthlaup eiginmannsins í tæpt ár tilkynnti hún hverjum sem vildi hlusta að hann hefði látist í bílslysi. Var Vera þá formlega loksins orðin ekkja og tók umsvifalaust að svipast um eftir nýjum eiginmanni. Leitin gekk hratt fyrir sig en Vera var varla komin í hnapphelduna þegar hún varð þess fullviss að eiginmaður númer tvö væri engu betri en sá fyrsti og svo fór að hann hvarf sporlaust nokkrum mánuðum inn í hjónabandið með Veru. Vera hélt sig við sömu söguna og sagði seinni bóndann einnig hafa stungið af með hjákonu. 

Vera átti ekki eftir að ganga oftar upp að altarinu en stóð í fjölda ástarsambanda, flest voru fyrir opnum tjöldum en önnur í felum og þá við kvænta menn. Mennirnir voru á öllum aldri og víða að úr þjóðfélagsstiganum en allir átti þeir sameiginlegt að hverfa vikum, mánuðum eða jafnvel aðeins dögum eftir að hafa verið svo ógæfusamir að falla fyrir þokka Veru. Aðspurð um mennina sagði hún ávallt að þeir hefðu haldið fram hjá henni, yfirgefið hana í kjöfarið, og hefði hún enga hugmynd um viðverustað þeirra. 

Kisturnar í kjallaranum

Teikning sem mun hafa birst í dagblaði um það leiti sem réttarhöldin hófust.

Enginn veit nákvæmlega ártalið en Vera mun hafa verið í kringum fertugt þegar eiginkona nokkur, sem grunaði bónda sinn um framhjáhald, elti mann sinn heim til Veru. Maðurinn hét Milorad og sneri aldrei heim eftir þetta kvöld. Eiginkonan fór til lögreglunnar og kvaðst síðast hafa séð mann sinn fara inn í hús í eigu Veru nokkurrar Renczi. Lögreglan sýndi málinu lítinn áhuga en lagði þó leið sína í glæsihýsi Veru að þrábeiðni eiginkonunnar staðföstu. Vera tók á móti lögreglu og játaði strax samband sitt við Milorad en kvaðst hann hafa slitið sambandinu og hefði hún enga hugmynd um ferðir hans. Lögregla sá enga ástæðu til að véfengja orð þessarar glæsilegu og vel máli förnu konu. En eiginkonu Milorad varð ekki haggað og hóf hún sína eigin rannsókn á Veru. Hún komst fljótlega að því að því að ekki höfðu aðeins tveir eiginmenn horfið sporlaust heldur hefði fjöldi annarra manna gufað upp eftir matarboð hjá Veru. Eiginkonan lagði hart að lögreglu að kanna mannshvörfin og í þetta skiptið létu yfirvöld sér skýringar Veru sér ekki nægja og gerðu húsleit. Við húsleitina fundust faldar dyr sem lágu niður í kjallara þar sem var að finna 32 sinkhúðaðar líkkistur, allar bólstraðar hinu vandaðasta silki. Í hverri þeirra lá karlmannslík, sum voru beinagrindin ein, önnur á á mismunandi stigum rotnunar.

Kjallarinn var fullur af kertum og í miðjunni var bólstraður hárauður flauelsstóll, með hálffullu kampavínsglasi á hliðarborði. Þar hafði Vera eytt kvöldunum í gegnum árin, klædd sínu fínasta pússi, í félagsskap ástmanna sinna, þess fullviss að þeir myndu aldrei yfirgefa hana.

Talaði við látna elskhuga

Vera viðurkenndi að eitrað fyrir eiginmönnum sínum og elskhugum, allt til þess að njóta þeirra að eilífu. Með því að deyða þá og búa um þá af ást og umhyggju í kistunum hafði hún tryggt að þeir myndu aldrei yfirgefa hana né særa heldur vera hennar um allan aldur. Það sem vakti þó hvað mestan óhug var játning Veru á morði sonar síns, Lorenzo. Aðspurð um ástæðuna sagði Vera Lorenzo hafa verið kominn á giftingaraldur og gat hún ekki hugsað sér að missa hann í arma annarrar konu. Eitraði hún þvi fyrir einkabarni sínu og lést Lorenzo í fangi móður sinnar sem þegar hafði útbúið silkiklædda kistu handa honum í kjallaranum.  Fátt er til um réttahöldin yfir Veru en þó eru til heimildir um að geðheilsu hennar hafi hrakað hratt meðan á þeim stóð. Hún var dæmd til dauða fyrir 35 morð en þar sem konur voru sjaldan sem aldrei teknar af lífi í þáverandi Júgóslavíu eyddi Vera því sem eftir lifði í fangelsi. Bæði starfsmenn og meðfangar fangelsisins munu hafa óttast Veru mjög sem talaði við látna elskhuga sína nótt sem nýtan dag á milli þess sem hún ógnaði bæði samföngum og starfsfólki. 

Vera Renczi lést árið 1960.

Því miður hafa mikið af heimildum um Veru tapast í áranna rás og er saga hennar sambland þeirra fáu skriflegu heimilda sem eftir lifa og sagna sem gengið hafa kynslóða á milli. En því verður ekki neitað að mögnuð ímynd Veru, klædda samkvæmiskjólum og vafða dýrindis skartgripum, sötrandi kampavín meðal látinna elskhuga í flökti kertaljósanna hefur verið uppspretta fjölda skáldsagna, kvikmynda og sjónvarpsþátta í áratugi.

Það hefði að öllum líkindum glatt Veru Renczi mjög , konunnar sem óttaðist ekkert meira en falla í gleymskunnar dá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár