Nemendur í 7. og 8. bekk Vopnafjarðarskóla eru á leið til Noregs að keppa í skandinavískri Legokeppni. Um er að ræða tólf nemendur, raunar alla nemendur í þessum tveimur árgöngum við skólann, en liðið þeirra stóð uppi sem sigurvegari í árlegri Legokeppni hér á landi sem Háskóli Íslands heldur utan um í samstarfi við Vísindasmiðju Háskóla Íslands og Verkfræðingafélagi Íslands.
Legokeppnin „First Lego League Ísland 2021″ er hönnunarkeppni grunnskólanna og fór hún fram í byrjun febrúar. Venjulega er hún haldin í nóvembermánuði ár hvert en vegna samkomutakmarkana var henni frestað og að lokum var hún færð yfir á netið.
Þátttakendur voru nemendur á aldrinum 9 til 16 ára, frá níu grunnskólum víðs vegar af landinu og samtals tóku tíu lið þátt.
Leystu þrautir með Lego-þjarki
Þema ársins voru vöruflutningar (e. Cargo Connect) en keppnin sjálf skiptist í keppnisflokkana liðsheild, forritun og hönnun, nýsköpunarverkefni og loks vélmennakappleik. Nemendurnir leystu þrautir með Lego-þjarki á sérhönnuðu keppnisborði.
Meðlimir sigurliðsins eru þau Alex Leví Svövuson, Arney Rósa Svansdóttir, Aron Daði Thorbergsson, Ásdís Fjóla Víglundsdóttir, Baldur Geir Hlynsson, Berglind Vala Sigurðardóttir, Freyr Þorsteinsson, Hákon Bragi Sölvason, Lilja Björk Höskuldsdóttir, Lilja Sveinsdóttir, Ragnheiður Kristín Eiríksdóttir og Þórhildur Inga Hreiðarsdóttir.
Liðið kallast Dodici og ástæðan fyrir því er einföld – Dodici þýðir tólf á ítölsku en þau eru einmitt tólf talsins.
Sólrún Dögg Baldursdóttir, kennari við Vopnafjarðarskóla, segir hefð að keppnislið frá skólanum noti fjölda liðsfélaga iðulega í nafnið. Þannig hafi liðið SevenUp samanstaðið af sjö nemendum og SixPack af sex nemendum. Nú voru þau að vinna með töluna tólf „og fundu töff orð yfir tólf með því að gúggla,“ segir Sólrún.
Liðið Dodici er sumsé First Lego League meistari Íslands 2021 og sem slíkt hlaut það meðal annars þátttökurétt í skandinavísku keppninni sem fer fram í Álasundi í Noregi þann 12. mars. Þá gaf Háskóli Íslands sigurliðinu 250 þúsund krónur upp í ferðakostnað.
Kökuhappadrætti og þrotlausar æfingar
Vegna seinkunar á keppninni hér á landi fékk hópurinn aðeins rúman mánuð til að æfa sig fyrir keppnina úti og safna fyrir ferðalaginu. Frá sigrinum í febrúar hefur síðan helmingur liðsins fengið Covid. „Það var svolítið óheppilegt,“ segir Sólrún sem sjálf er lasin þegar blaðamaður nær tali af henni.
Auk þess að æfa fyrir stóru keppnina í Noregi hafa þau nýtt lausar stundir til að safna ferðafé, og það er innanlandsflugið sem er stór kostnaðarliður.
Hópurinn flýgur frá Egilsstöðum til Reykjavíkur þann 9. mars, heldur síðan til Osló í Noregi og loks til Álaborgar.
Sólrún segir að ungmennin hafi gengið í fyrirtæki á Vopnafirði og óskað eftir styrkjum, og sent tölvupósta á enn fleiri. Þá hafi þau bakað, ásamt foreldrum sínum, og staðið fyrir skemmtilegu kökuhappadrætti.
Og þau eru öll virkilega spennt fyrir keppninni framundan. „Þau eru búin að standa sig vel í undirbúningnum. Þetta hefur tekið mikinn tíma í skólanum og lika utan skóla. Á fimmtudag og föstudag er vetrarfrí í skólanum og þá verður haldið áfram. Það er enn nóg sem á eftir að gera,“ segir Sólrún sem vonar líka að allir verði nú heilir heilsu þegar kemur að Noregsferðinni.