Úkraína hefur boðið rússneskum mæðrum að koma til Úkraínu að sækja rússneska hermenn sem teknir hafa verið til fanga. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneyti Úkraínu.
„Ákvörðun hefur verið tekin um að sleppa rússneskum hermönnum ef mæður þeirra mæta að sækja þá til Kyiv í Úkraínu,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá hefur ráðuneytið gefið út símanúmer og netfang sem rússneskar mæður geta haft samband við til að sækja syni sína. „Þið verðið tekin til Kyiv þar sem syni ykkar verður skilað til ykkar,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni. „Ólíkt Pútín og hans fasistum þá erum við Úkraínumenn ekki að herja stríð gegn mæðrum og þeirra fönguðu sonum.“
Þá hefur blaðamaður Kyiv Independent greint frá því að almennir borgarar í Úkraínu hafi boðið fönguðum rússneskum hermönnum upp á te og mat auk þess sem þeim er gefið færi á að hringja í mæður sínar í gegnum myndsíma. „Mig langar að gráta því ég elska landið mitt svo mikið,“ segir blaðamaðurinn í færslu sem hún birti á Twitter-síðu sinni.
A Russian soldier surrendered. Ukrainians gave him tea, food, and let him call his mother on video. I want to cry from how much I love my country. pic.twitter.com/ZiERQsyBbo
— Anastasiia Lapatina (@lapatina_) March 2, 2022
Síðan innrás Rússa hófst í Úkraínu hefur mikið verið fjallað um rússneska hermenn sem voru mættir í Úkraínu á fölskum forsendum. Þeim var talin trú að þeir væru á leið í björgunarleiðangur, ekki í stríð. Því er sagt að einhverjir þeirra hafi lagt niður vopnin þegar þeir fundu fyrir mótstöðunni frá Úkraínumönnum.