Samkvæmt frétt NBC News þá herma heimildir frá Moskvu að Pútín hafi látið reiði sína bitna ótæpilega á nánum samstarfsmönnum sínum. Hann sé mjög reiður og ósáttur vegna þess hversu illa hernaður Rússa í Úkraínu gengur sem og vegna viðbragða umheimsins við innrásinni en flestar þjóðir heims hafa fordæmt Rússa og standa þeir nú nær aleinir og útskúfaðir á alþjóðavettvangi.
Telja bandarískar leyniþjónustustofnanir að vegna þessa sé hugsanlegt að Pútín gefi fyrirmæli um enn harkalegri hernað þar sem ofbeldið og manntjónið verður enn meira sem og eyðileggingin sem því fylgir.
Mark Warner, þingmaður og formaður leyniþjónustunefndar Bandaríkjaþings, sagði í samtali við MSNBC að Pútín sé orðinn mjög einangraður. „Hann er ekki mikið í Kreml lengur . . . Hann fær sífellt færri upplýsingar og ráð og þessar upplýsingar og ráð koma frá höfðingjasleikjum,“ sagði Warner og bætti við: „Ég óttast að hann sé búinn að mála sig út í horn. Ég óttast að hann hafi enga augljósa útgönguleið.“