„Í gegnum söguna höfum við lært þessa lexíu – þegar einræðisherrar þurfa ekki að gjalda fyrir árásargirni sína þá valda þeir meiri ringulreið. Þeir halda áfram og kostnaðurinn og hættan sem steðjar að Bandaríkjunum og heiminum vex,“ sagði hann meðal annars.
Sky News segir að Biden hafi hrósað hugrekki Úkraínubúa, bæði hermanna og óbreyttra borgara, sem hafa varið land sitt og heimili með kjafti og klóm síðan innrásin hófst.
Hann hrósaði einnig samstöðu Vesturlanda sem hafa komið sér saman um harðar refsiaðgerðir gegn Rússum og hafa stutt Úkraínubúa með vopnum og öðrum búnaði.
„Fyrir sex dögum reyndi Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, að skekja stoðir hins frjálsa heims og hélt að hann gæti beygt hann með ógnvekjandi aðferðum. En hann misreiknaði sig hrapalega. Hann hélt að hann gæti vaðið inn í Úkraínu og að heimsbyggðin myndi velta sér á bakið. En í staðinn mætti hann þvílíkum múr að hann hefði aldrei getað ímyndað sér annað eins. Hann mætti Úkraínubúum. Allt frá Zelenskyy forseta til sérhvers Úkraínubúa, óttaleysi þeirra, hugrekki þeirra, staðfesta þeirra, veitir heiminum innblástur. Hópar borgara sem stöðva skriðdreka með líkama sínum. Allir, allt frá stúdentum til kennara á eftirlaunum hafa gerst hermenn til að verja ættjörð sína,“ sagði Biden í ræðu sinni.