Maður var sakfelldur í Héraðsdómi Norðurlands eystra í gær fyrir líkamsárás, stórfelldar ærumeiðingar gegn maka og barnaverndarlagabrot.
Var ákært vegna atviks sem átti sér stað á Akureyri þann 4. desember árið 2020. Atvikinu er lýst svo í ákæru og texta dómsins:
„fyrir líkamsárás, stórfelldar ærumeiðingar gegn maka og barnaverndarlagabrot, með því að hafa föstudagskvöldið 4. desember 2020, á heimili sínu og fyrir utan heimili sitt að […] á Akureyri, ráðist að eiginkonu sinni Y, kt. […] og syni Z, kt. […], þar sem þau voru inni á baði íbúðarinnar og konan að hreinsa tár framan úr andliti sonar þeirra, gripið í hnakka hennar og þvingað höfuð hennar niður að vaskinum og ítrekað talað niðurlægjandi til hennar fyrir framan soninn og síðan þegar hún ætlaði af heimilinu með drenginn til vinafólks hennar, varnað þeim útgöngu og gripið í hendur drengsins og dregið hann til sín og ýtt konunni út um útidyrahurð íbúðarinnar og reynt að loka hurðinni. Konan varnaði því að hann gæti lokað hurðinni með því að setja fót sinn á milli stafs og hurðar og komst þannig aftur inn í íbúðina og drengnum tókst að losna og hlaupa út í bifreið vinar þeirra sem var kominn fyrir utan húsið til að ná í konuna og barnið. Ákærði tók þá aftan í hnakka konunnar og sló höfði hennar tvisvar til þrisvar utan í hurðakarminn á útidyrahurðinni og síðan ýtti hann framan á brjóstkassa hennar með þeim afleiðingum að hún féll aftur á bak inn í íbúðina, þannig að hún lenti á bakinu og hnakki hennar lenti á flísalögðu gólfinu í forstofunni. Síðan hljóp ákærði út úr íbúðinni og reyndi að ná til sonar þeirra sem sat inni í bifreið vinar þeirra sem hafði læst bílnum og fyrir utan bílinn ýtti hann aftur við konunni sem féll í götuna. Meðan á þessu öllu stóð kallaði ákærði konu sína allskonar ónöfnum meðal annars hóru, allt í áheyrn drengsins.
Afleiðingar þessa fyrir brotaþola Y voru þær að hún hlaut þreifieymsli á hnakka, hrufl á hægra hné og marblett á vinstra hné.“
Maðurinn játaði allar sakargiftir. Hann hefur hreinan sakaferil og hafði það áhrif til þess að refsing yfir honum var skilorðsbundin. Var hann dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi. Auk þess þarf hann að borga tæplega hálfa milljón króna í málskostnað.