Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, var allt annað en sáttur með frumvarp til breyttra útlendingalaga sem Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hyggst leggja fyrir í næstu viku. Andrés hjólaði af fullum krafti í Jón fyrir að ætla að reyna að koma þessu frumvarpi í gegn og sakar hann um að reyna að smeygja því inn í skugga umræðu um stríðið í Úkraínu.
„Honum finnst ekki ganga nógu vel að sparka flóttafólki úr landi, það vantar lagaheimild til að þvinga þau til líkamsrannsóknar, hann vantar lagaheimild til að geta vísað því allslausu á götuna í Grikklandi. Þetta ætlar hann að nota Úkraínustríðið til að réttlæta,“ sagði Andrés um þessar ætlanir Jóns í pontu á Alþingi í dag.
Síðar í umræðunni komu tveir þingmenn úr stjórnarflokkunum, þeir Jóhann Friðrik Friðriksson í Framsókn og Orri Páll Jóhannsson í Vinstri grænum og sögðu að Ísland myndi að sjálfsögðu taka á móti flóttafólki frá Úkraínu.
Þetta var Andrés ekki sáttur með og tók hann því aftur til máls. „Herra forseti, ég er ekki viss um að þeir háttvirtir stjórnarliðar sem töluðu hér á undan mér hafi endilega heyrt umræðuna því við vorum ekkert að tala um það hvort að Ísland ætlaði að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu. Ég held að það liggi fyrir að það standi til,“ sagði hann.
„Það sem við erum hins vegar að gagnrýna er að ráðherrann, dómsmálaráðherrann hæstvirtur, ætlar að nýta ferðina, ætlar að nota flóttafólkið frá Úkraínu sem átyllu fyrir því að koma í gegn frumvarpi sem hann er fjórði ráðherra þessarar ríkisstjórnar til að reyna að koma í gegn. Frumvarpi sem snýst eingöngu um það að geta sparkað fólki hraðar úr landi og það eru ekki úkraínsku flóttamennirnir sem á að sparka.“
Andrés útskýrir þá hvaða flóttafólk hann er að tala um. „Það er fólkið sem er að flýja ástandið í Palestínu, í Sýrlandi. Það er fólkið sem að er búið að brjóta lög á, þegar það var svipt þjónustu hér á landi, það er búið að brjóta lög á óléttum konum þegar þeim er veitt flughæfnisskírteini af trúnarðarlækni útlendingastofnunar, og vegna þess að rikisstjórn Katrínar Jakobsdóttir var gerð afturreka með þessi lögbrot, þá ætla þau að breyta lögunum þannig að þau geti brotið á mannréttindum flóttafólks í skjóli laganna.,“ segir hann.
Í lokasetningunni skafar Andrés svo ekkert af hlutunum. „Og að nota stríðið í Úkraínu sem átyllu fyrir þessu, það er viðbjóður forseti.“ Þá heyrist kallað „heyr heyr“ úr salnum er Andrés lýkur ræðu sinni og gengur frá pontunni.
Myndband af ræðu Andrésar má sjá í spilaranum hér fyrir neðan: