Samtök atvinnulífsins (SA) gerðu heldur vandræðaleg mistök þegar sent var út boð vegna athafnar í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna.
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), greinir frá því á Facebooksíðu sinni að hún hafi fengið eftirfarandi boð frá SA: „Við bjóðum þér að vera við athöfn þegar við hringjum bjöllu í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 7. mars kl. 12.30. Viðburðurinn fer fram í Hörpu, 2.hæð (Hörpuhorn).“
Staðreyndin er hins vegar sú að alþjóðlegur baráttudagur kvenna er ekki 7. mars heldur þann 8. og benti Drífa á það í svari sínu til SA, en hún segist einfaldlega ekki hafa staðist mátið, og rifjaði í leiðinni upp sósíalískan uppruna baráttudagsins sem SA ætlar að fagna: „Takk fyrir boðið en þið vitið að alþjóðlegur baráttudagur kvenna er 8. mars, upprunninn í sósíalískri baráttu fyrir jafnrétti kynjanna í byrjun síðustu aldar.“