Rússneski fjölmiðillinn RIA–Novosti birti fyrir mistök grein á laugardaginn, en af greininni mátti ráða að Rússar væru búnir að vinna stríð þeirra gegn Úkraínu. Talið er að greinin hafi verið tímastillt til að birtast 48 klukkustundum eftir að innrásin hófst því talið hafi verið að það tæki aðeins þann skamma tíma fyrir Rússa að sigra.
Greinin var svo fljótlega tekin út, en er þó aðgengileg á veftímavélinni WayBackMachine.Af lestri hennar má dæmi um hvaða hugmyndir þeir Rússar sem styðja stríðið, virðast vera með gagnvart því og hvaða árangri þeir telja sig vera að ná.
Umræddur fjölmiðill, RIA Novosti, er í ríkiseigu og hefur miðillinn verið þekktur fyrir að dreifa áróðri og vera hliðhollur ríkisstjórninni, en höfundur umræddrar greinar er Petr Akopov.
Greinin hefst svona:
„Nýr heimur er að fæðast fyrir augum okkar. Hernaðar aðgerðir Rússa í Úkraínu hafa hringt inn nýtt tímabil.“
Petr segir svo að Rússlandi hafi tekist að yfirstíga þann harmleik sem fall Sovétríkjanna var.
„Rússland er að endurheimta einingu sína – harmleikurinn sem átti sér stað árið 1991, þær hamfarir í sögu okkar, ónáttúruleg upplausnin, hafa verið yfirstiginn.“
Petr segir að vissulega hafi þetta stríð kostað sitt og gerir ráð fyrir að enn séu Úkraínuherinn og sá rússneski að berjast – bræður gegn bræðrum, eins og Petr lítur á það.
Petr segir að nú verði Úkraína hluti af rússnesku veldi sem samanstandi af Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Úkraínu. Petr segir í grein sinni að það hafi lengi verið ljóst að aðskilnaður Úkraínu frá Rússlandi yrði ekki liðinn til lengdar. Í greininni kallar hann meira að segja Úkraínumenn „litlu Rússana“
Það hafi verið áfall þegar Úkraína fékk sjálfstæði eða eins og Petr kallar það „Þegar við misstum Úkraínu“ og eftir því sem tímanum leið varð ljóst að erfiðara og erfiðara yrði að ná Úkraínu aftur og að íbúar Úkraínu færu að upplifa sig í minni og minni tengslum við Rússland.
„Nú er þetta vandamál úr sögunni – Úkraína hefur snúið aftur til Rússlands.“
Petr segir að þetta þýði þó ekki að Úkraína sé úr sögunni heldur verði hún endurskipulögð og aftur gerð að hluta að „rússneska heiminum“.
Þá sé komið að næsta vandamáli en Petr segir í greininni sinni að Vesturlöndin séu farin að seila sig of langt.
„Héldu einhverjir í gömlu evrópsku höfuðborgunum, í París og Berlín, í fullri alvöru að Moskva myndi gefa Kænugarð upp á bátinn? Að Rússar yrðu sundraðir til frambúðar?“
Nú muni Rússland, Hvíta-Rússland og Úkraína standa sameinuð að því að standa í fæturna gegn Vesturlöndunum sem geti ekki lengur notað Úkraínu til að þjarma að Rússum.
„Vesturlöndin halda að alþjóðasamstarf skipti okkur miklu máli. En sú hefur ekki verið raunin lengi – heimurinn hefur breyst, og þetta skilja allir, ekki bara Evrópubúar, heldur líka Engilsaxarnir sem stjórna Vesturlöndunum. Þrýstingur Vesturlandanna á Rússland mun ekki skila neinu.“
Petr segir að tími Vesturlandanna sé liðinn undir lok.
„Kína og Indland, Latneska Ameríka og Afríka, íslamski heimurinn og suðaustur Asía – enginn trúir því að Vesturlöndin ráði lengir, hvað þá að þau skrifi reglurnar. Rússland hefur ekki bara boðið Vesturlöndum byrginn, heldur sýnt að tími heimsyfirráða Vesturlandanna sé nú algjörlega og loksins liðinn undir lok.“