Lítill úkraínskur drengur, Mark Goncharuk, hefur vakið athygli eftir að myndskeið birtist þar sem hann greindi grátklökkur frá því að faðir hans hafi ekki geta komið með honum og fjölskyldunni á flótta frá Kænugarði.
Mark var staddur í rútu á leiðinni frá Kænugarði, þar sem hann býr að staðaldri, en áður en hann fékk far með rútunni sá hann fram á að þurfa að ganga langa vegalengd að landamærunum.
„Við skildum pabba eftir í Kænugarði. Pabbi mun selja hluti og hjálpa hetjunum okkar, hjálpa hernum okkar. Við vorum búin að ganga í um þrjár klukkustundir og þið björguðuð okkur,“ sagði Mark við ónefndan aðila sem tók við hann viðtal en af samhenginu má ráða að viðkomandi sé einn þeirra sem starfrækja rútuna. „Ég hélt við þyrftum að ganga í tvo til þrjá daga, en þið hjálpuðuð okkur“
Talið er að hátt í 400 þúsund Úkraínumenn séu nú á flótta undan stríðsátökunum í landinu og talið er að yfir 4,5 milljónir gætu bæst í hópinn ef stríðið breiðist meira út. Tugir þúsunda eru taldir vera á flótta innan Úkraínu þar sem þau færa sig á öruggari svæði.
Flestir eru að flýja að landamærum Úkraínu og Póllands, en Pólland hafði í gær skráð 156 þúsund komur. Aðrir leita til landamæranna við Rúmeníu eða til Ungverjalands, Slóvakíu eða Moldóvu.
Flestir á flótta eru konur, börn og eldri borgarar. Þau eru með eigur sínar í bakpokum, plastpokum og ferðatöskum. Börn sjást þar sem þau faðma leikföng og sum bera gæludýrin með sér.
Fregnir hafa borist af hlýjum móttökum sem fólkið fær við landamærin. Margt flóttafólksins hefur verið á göngu tímum, jafnvel dögum, saman og eru uppgefin og í uppnámi yfir ástandinu.
Samkvæmt upplýsingum frá Evrópusambandinu er núna mikil bið víða við landamærin. Sem dæmi má nefna að það getur tekið allt að 70 klukkustundir að komast inn í Pólland og um sjö klukkustundir að komast inn í Slóvakíu. Því þurfa margir að gista í bílum sínum þó hitinn sé við frostmark.
Tafirnar má að einhverju rekja til þess að Úkraína hefur lagt bann við því að karlmenn á aldrinum 18-60 ára yfirgefi landið.
Pólskir og þýskir miðlar hafa greint frá tilvikum þar sem karlmenn hafa fylgt konum sínum og börnum alveg upp að landamærunum. Jafnvel eru þeir að afhenda börn sín ókunnugum og gefa þeim leiðbeiningar um að koma þeim til ættmenna sem eru þegar komin inn í landið. Þeir faðma svo fólkið sitt og halda aftur inn í Úkraínu til að berjast.