SOS Barnaþorpin á Íslandi hófu í morgun neyðarsöfnun fyrir börn og fjölskyldur þeirra sem eiga um sárt að binda vegna stríðsátakanna í Úkraínu. Stjórn SOS á Íslandi hefur ákveðið að leggja til 5 milljónir króna í neyðaraðstoð til SOS í Úkraínu. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í fréttatilkynningu frá SOS á Íslandi.
„Ljóst er að SOS Barnaþorpin í Úkraínu munu þurfa mikla aðstoð á næstunni og eru landssamtök SOS víða um heim að undirbúa söfnun. Hjálparstarfsemi SOS í Úkraínu er mjög víðtæk og nær til um um 2.300 einstaklinga, allt í þágu barna og viðbúið er að sú tala muni hækka allverulega á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni en áætlað er að á þriðja milljón Úkraínumanna muni leggja á flótta eða verða á vergangi í heimalandi sínu.
50 Íslendingar eru SOS-foreldrar barna í Úkraínu en þar eru um 150 börn og ungmenni í umsjá SOS. Þau búa ýmist með SOS fjölskyldum sínum í barnaþorpinu í Brovary eða hjá fósturfjölskyldum á vegum SOS. Meðal fjölda áskorana sem stjórnendur SOS í Úkraínu eru að fást við er að veita starfsfólki áfallahjálp því margir eru í losti.
Barnaþorpið í Brovary hefur verið rýmt og 99 börn og fósturforeldrar þeirra í Luhanks héraði í austurhluta landsins hafa verið flutt um set til vestur Úkraínu. „Það var gert til að tryggja öryggi þeirra og draga úr hættunni á að þau upplifi ótta og kvíða. Þrjár skrifstofur SOS eru í Luhansk. Það eru 300 fósturfjölskyldur sem leggja allt sitt traust á SOS Banaþorpin og hafa gert síðastliðin 8 ár. Landsskrifstofa SOS í Kænugarði er starfhæf,“ segir í tilkynningunni.
„Við upplifum okkur algerlega hjálparlaus. Forgangsmál okkar núna er að vernda eins mörg börn og við getum,“ sagði Serhii Lukashov, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Úkraínu á fundi með öllum landssamtökum SOS.
SOS Barnaþorpin starfa óháð trú og stjórnmálum og það endurspeglast í samskiptum SOS í þessum löndum. „Ég er í nánu sambandi við SOS Barnaþorpin í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Við erum í sama liði – í liði með börnunum. Við munum halda áfram að vernda börnin fyrir hryllingi stríðsins,“ segir Lukashov.