Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Þormóði Árna Jónssyni, framkvæmdastjóra Júdósambands Íslands, fyrir líkamsárás. Refsingin er 30 daga skilorðsbundið fangelsi.
Dóminn fær Þormóður fyrir að hafa slegið frá sér er hópur dyravarða réðst á hann og hélt honum föngnum niðri í götunni á Laugavegi, fyrir utan Lebowski Bar. Sló hann til eins mannanna sem hlaut minniháttar áverka. Þormóður og lögmaður hans hafa ávallt staðhæft að um hafi verið að ræða ósjálfrátt sársaukaviðbragð og í héraðsdómi lagði lögmaður hans fram myndskeið sem átti að sanna það.
Hvorki Héraðsdómur né Landsréttur voru sammála þeirri túlkun.
Atvikið er átti sér stað á aðfaranótt 23. desember árið 2018. Þormóði var þá vísað út af Kalda Bar sem er á Klapparstíg, rétt fyrir ofan Laugaveg. Rekstrarstjóri Kalda Bars elti Þormóð út á götu og urðu hörð orðaskipti milli þeirra fyrir utan Lebowski Bar á Laugavegi. Þormóður er sagður hafa rifið í rekstrarstjórann og skellt honum upp við vegg. Þustu þá að dyraverðir frá bæði Kalda Bar og Lebowski Bar, tóku Þormóð föstum tökum og sneru hann niður í götuna. Þeir héldu honum niðri í götunni þar til lögregla kom á vettvang, setti Þormóð í járn og fór með hann burtu. Hann sat í fangaklefa fram á næsta dag, sem var Þorláksmessa, og var síðan látinn laus eftir skýrslutöku.
Dómur Héraðsdóms hafði engin áhrif á stöðu Þormóðs innan Júdósambandsins og hélt hann starfi sínu sem framkvæmdastjóri þess.