,,Ég á svarta fortíð, hún er ógeðsleg, en ég mun aldrei gleyma henni né reyna að fela eða fegra því hún er stór partur af mér sem einstakling.. Ég lít svo á að hún hjálpi mér, því mín reynsla verður ekki kennd á skólabekk”, segir Unnar Þór Sæmundsson, 31 árs fjögurra barna faðir, laganemi, fyrirtækjaeigandi og frambjóðandi í prófkjöri Pírata.
Frá unglingsárum var líf Unnars var litað harðri fíkniefnaneyslu, ofbeldi og afbrotum og oftar en ekki var honum ekki hugað líf. En frá unga aldri brann hann einnig fyrir pólitík og samfélagsmálum en vissi að hann yrði aldrei gjaldgengur á meðan hann væri í bullandi neyslu.
Undanfarin ár hefur Unnar starfað innan Píratahreyfingarinnar, meðal annars sem gjaldkeri flokksins, og hyggst nú stíga skrefið til fulls.
Rítalín og róandi til skiptis
,,Ég ólst upp hjá mömmu á Flúðum sem eins og svo margir smábæir svolítið eitraður en einnig samheldinn. Það fór mikið fyrir mér og sennilega skiptist bærinn í þá sem kölluðu mig vandræðabarn og hina sem kölluðu mig uppátækjasaman. Ég var um fimm ára þegar ég var greindur með ADHD, settur á lyf og mömmu sagt að þetta myndist eldast af mér eins og hver annar barnasjúkdómur. Á þeim árum var stemningin að gefa krökkum rítalín, sem olli því að þau gátu ekki sofið, og svo á móti róandi til að hjálpa þeim af sofna. Þetta hafði auðvitað sín áhrif en sem betur fer hefur þetta breyst og í dag eru lagðar meiri áherslur á aðrar aðferðir. En þetta hafði sín áhrif og mótaði mig mjög á þessum árum.”
Aðgengi að góðum fíkniefnum
Að grunnskóla loknum beit Unnar það í sig að fara út sem skiptinemi til Ítalíu en endaði þess í stað í Perú þar sem öll pláss á Ítalíu voru fullbókuð. ,,Þetta var hvatvísin. Ég hef alltaf viljað fara mínar eigin leiðir,” segir Unnar. Á þessum árum var hann byrjaður að fikta í neyslu og segir það gefa augaleið að einstaklingur í erfiðleikum með fíkniefni hafi verið fljótur að átta sig á að aðgengi að mjög góðum fíkniefnum væri auðvelt í Perú. ,,Ég átti mjög auðvelt með að fela hlutina á þessum árum. Auk þess var ég í Suður Ameríku, langt frá þeim sem þekktu mig best, og þeir Íslendingar sem ég umgekkst þekktu mig ekki nógu vel til að átta sig á neyslunni. Þegar ég kom heim var ég búin að vera í mikilli neyslu og náð að fela það vel. En þetta varð töluvert erfiðara auk þess sem aðgengið að fíkniefnum var mun erfiðara hérna heima”.
Grillað ástand
Unnar fór í Menntaskólann á Laugarvatni þar sem hann lenti upp á kant við allt og alla, ,,Ég var búinn að vera að gera mitt í heilt ár, ferðast og hafa gaman, og þurfti allt í einu að byrja að taka ábyrgð. Ég kunni það ekki og fyrstu viðbrögð voru alltaf að fara í vörn”. Hann hætti í námi og neyslan jókst. Fljótlega var hann komin í harðan heim afbrota og ofbeldis og við tók hringekja meðferðarúrræða og fangelsisdóma. Aðeins 19 ára var Unnar líkamlega búinn á því og var greindur með gulu af völdum lifrarskemmda. Aðspurður um hvort hann hafi verið kominn í sprautuneyslu segir hann svo ekki vera en hann hafi þó prófað innan um sprautufíkla. ,,Ef svo bar við fannst mér ekkert mál að fara yfir í sprautur einstaka sinnum, Ástandið var svo ótrúlega grillað”.
Fíknin yfirtekur allt
Svo kom að því að Unnar fann ástina og varð kærasta hans ólétt, ,,Ég var búinn að sitja af mér dóm, var að koma út af Vernd og harðákveðinn í að snúa við blaðinu. En meiri ábyrgð er ekki ávísun á að neyslan stöðvist því foreldraástin á ekki séns í fíkn, eins magnað og hræðilegt eins og það er. Fíknin yfirtekur allt og allt siðferði fer út um gluggann. Kærastan mín setti mér á endanum stólinn fyrir dyrnar og sagðist ekki taka þátt í þessu lengur. Ég vorkenndi mér óskaplega, fannst allir svo leiðinlegir við mig og við tók tímabil hörðustu neyslu ævi minnar”.
Unnar segist enn ekki vita hversu langt þetta tímabil hafi verið, tvær vikur eða þrír mánuðir, áður en hann vaknaði á geðdeild Landspítala eftir þriggja daga meðvitundarleysi. Læknar trúðu því ekki að hann væri enn á líf, svo illa var hann farinn.
Draumur að verða faðir
,,Þarna gerðist eitthvað. Það er ekki hægt að eiga samskipti við einstakling á kafi í neyslu en fólkið mitt var ótrúlegt. Mamma bjó í Noregi og gerði sitt besta og pabbi, konan hans og systur mínar voru eins og klettur við hlið mér, jafnvel þótt við pabbi höfum ekki alltaf átt skap saman í gegnum tíðina. Konan mín var algjört gull þrátt fyrir að ég hefði verið viðbjóður og sagt ófyrirgefanlega hluti. Hún stóð með mér, föst á því að ég væri væri góður maður og faðir, en veikur”.
Þegar stjúpmóðir Unnars mætti með dóttur hans í heimsókn á deildina varð hann þess fullviss að hætta, hann gæti ekki boðið dóttur sinni upp á eiga föður í fíkn. ,,Mig hafði alltaf langað í barn, minn draumur hafði verið að verða faðir og loksins hafði hann ræst. Ég vissi að ég vildi fá lífið mitt aftur. Konan mín og dóttir voru drifkrafturinn sem ég þurfti”.
Unnar fór í Hlaðgerðarkot, ákveðinn í að taka ábyrgð á eigin brestum. ,,Ég ákvað að þetta yrði síðasta meðferðin og tók vinnuna í sjálfum mér mjög alvarlega. Það var síðan Grettistakið á vegum Reykjavíkurborgar sem varð lykilatriðið í mínum bata”.
Grettistakið
Unnar segir endurhæfingarprógrammið Grettistak vera eina úrræðið síns eðlis á landinu og til þess fallið að gjörbreyta landslaginu í endurhæfingu fíkla. Grettistak er var stofnað til að styðja fólk með langvarandi félagslegan vanda vegna vímuefnaneyslu til sjálfshjálpar. Unnar segir meðferðina er þrepaskipa og fela meðal annars í sér einstaklingsráðgjöf, fyrirlestra, aðstoð við að komast í nám og fjármálráðgjöf svo fátt eitt sé nefnt. ,,Mér leist ekkert á að fara inn í þetta í fyrstu, enda ólíkt þeim meðferðarúrræðum sem ég var vanur, en árangurinn er rosalegur. Nálgunin er mun manneskjulegri en í öðrum úrræðum, fólki er til dæmis ekki hent út fyrir að falla eins og almennt er vaninn í meðferðarúrræðum. Ég fullyrði að Grettistakið hafi bjargað lífi mínu og það stendur mér afar nærri hjarta”.
Svekktur með Brynjar og Kolbein
Áhuginn á samfélagsmálum og stjórnmálum varð til þess að Unnar fór að mæta á fundi hjá Píratahreyfingunni og var fljótlega kominn á kaf í flokksstarfið. ,,Það var grunnstefna flokksins sem dró mig að Pírötunum. Grunnstefnan um borgararéttindi og að allir eiga skilið aðkomu að ákvörðunum. Við höfum talað fyrir ótrúlegum umbótum í málefnum fíkniefna og vorum fyrst til að tala fyrir afglæpavæðingu neysluskammta sem núna er ,,mainstream” og enginn stjórnmálamaður þorir að tala gegn. Nema einn og einn fornaldarþór”, bætir Unnar við.
Unnar vann af krafti til að koma frumvarpinu í gegn. ,,Við vissum að þetta yrði fellt en vildum kalla fram afstöðu því það verður að fara að birta til í þessum málum. Og ég er alveg óhræddur við að segja að ég varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum með þingmenn á við Brynjar Níelsson og Kolbein Óttarson Proppé, þingmenn sem ég taldi að stæðu fyrir annað, en kusu gegn frumvarpinu og gátu ekki einu sinni séð sóma sinn í að sitja hjá.
Með dauðaskammt í höndunum
Unnar brennur fyrir málum fíkla og kallar eftir nýsköpun á sviði meðferðarúrræða, það sé fullt af fólki með reynsluna og þekkinguna en fjármagnið vanti. ,,Ég er ekki með öll svörin en við þurfum að prófa okkur áfram og gefa fólki séns. Við sem þjóð megum aldrei gefa afslátt af mannréttindum eða koma í veg fyrir að einstaklingar séu besta útgáfan af sjálfum sér. Reykjavíkurborg getur gert svo margt, til dæmis með samstarfi við SÁÁ eða með opnun nýrrar meðferðarstofnunar á eigin vegum. Margir vinir mínir eru enn í neyslu, ég er ekki í daglegum samskiptum við þá, en ég er með ákveðin tengsl við þetta hliðarsamfélag og það er ótrúlega mikilvægt. Þetta er hin fjölskylda mín og þau eru að deyja, sérstaklega þau sem eru komin á minn aldur, líkaminn er að gefa sig. Það er hálfs ár bið inn á Vog og fólk hrynur niður meðan það er á biðlista. Að ekki sé minnst á aðstandendurnar. Og hvað vita flestir stjórnmálamenn um að vera á götunni, með dauðaskammt í höndunum?”
Stjórnkerfinu slétt sama um fíkla
Unnar segir stjórnkerfinu slétt sama um fíkla. ,,Og þá er ég að tala um stjórnkerfið sem heild því það eru vissulega einstaklingar innan þess sem eru á annarri skoðun. En kerfið sér engan hag í því að hjálpa fíklum sem er mjög skrýtið því einn fíkill er mjög kostnaðarsamur. Ég efast ekki um að sjálfur sé ég 100 milljónum ódýrari á ári í edrúmennskunni en þegar ég var í neyslu þegar allt er lagt saman, lækniskostnaður, lögregla, fangelsi og fleira”.
Hann bætir við að það sé sturluð krafa á stjórnmálamenn að þeir hafi skoðanir á öllu og séu með lausn á öllu. ,,Við höfum það sem grunnstefnu að endurskoða ákvarðanir við birtingu nýrra gagna. Ég er alltaf tilbúinn að viðurkenna að ég hafi rangt fyrir mér ef mér eru sýnd gögn sem sýna fram á það. Við þykjust ekki vita allt og erum alveg óhrædd við að játa það. Það er allt í lagi að skipta um skoðun og vera ekki fastur í sama farinu vegna einhverrar trúar um trúverðugleika. Það virkar mjög ,,off” á mig að sjá stjórnmálamenn sem segjast vera með svör og lausnir við öllu því það er ómögulegt”.
Jafnvel Miðflokkinn
Unnar er stoltur af því að Pírötum sé nákvæmlega sama hvaðan gott komi þótt mörgum stjórnmálamönnum finnist það skrýtið, enda innbyggt í hefðbundið flokksstarf að halda fast í eigin stefnu. ,, Ég myndi meira að segja styðja Miðflokkinn ef hann kæmi fram með góða tillögu!”, segir Unnar Þór áður en heldur út í storminn þar sem hans bíður tími í lögfræðinni.