fbpx
Þriðjudagur 11.febrúar 2025
Fréttir

Sverrir missti allt er heimili hans brann til kaldra kola – „Það var allt brunnið. Ekkert eftir“

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 23. febrúar 2022 11:51

Sverrir og Ute - Mynd: Fréttablaðið/Aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sverrir Jónsson hefur verið búsettur í Þýskalandi í 30 ár en hann býr í borginni Essen ásamt eiginkonu sinni Ute Hilbradt. Aðfaranótt síðastliðins mánudags brann heimili Sverris og Ute til kaldra kola á örskotsstundu. Um var að ræða fimm hæða fjölbýlishús með um 50 íbúðum.

Sverrir og Ute sluppu út örfáum mínútum áður en eldurinn tók yfir heimili þeirra. „Þetta voru mikil ósköp. Lögreglan bankaði hjá okkur um klukkan hálf tvö um nóttina. Þeir sögðu okkur að klæða okkur og yfirgefa íbúðina þar sem eldurinn gæti breiðst yfir til okkar,“ segir Sverrir í samtali við Fréttablaðið sem greindi frá.

Hjónin klæddu sig og fóru út, Sverrir hafði aðeins tekið með sér vegabréfið og veskið sitt á leiðinni úr íbúðinni. Þau fengu að líta inn í íbúðina í fyrradag en þá var heimili þeirra orðið að engu. „Það var allt brunnið. Ekkert eftir. Við töpuðum öllu. Ég átti bókasafn með íslenskum bókum og það var allt farið. Sem betur fer vinn ég hjá gömlu þýsku fyrirtæki sem á margar íbúðir og hugsar vel um sína starfsmenn,“ segir Sverrir.

Fyrirtækið sem Sverrir vinnur hjá úthlutaði hjónunum íbúð sem þau geta verið í á meðan þau leita sér að nýju heimili. „Þau sjá um sína og hafa gert í mörg hundruð ár. Við erum nýkomin í íbúðina og fáum að vera hér í svona þrjá mánuði,“ segir Sverrir en hann vinnur í Krúpp, stálsmiðju í Essen.

Sverrir ætlar ekki að gefast upp þrátt fyrir þetta mikla mótlæti. „Þetta er bara gamli íslenski hugsunarhátturinn: Þetta reddast. Þetta er vestfirski hugsunarháttur; ég er Ísfirðingur og er vanur mótlæti, vondu veðri og mikilli baráttu. Það þýðir ekkert annað en að segja þetta reddast og nú byrjum við bara upp á nýtt,“ segir hann í samtali sínu við Fréttablaðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt