Systurnar heita Brittany og Briana Salyers. Þær eru eineggja tvíburar. Þær eru giftar Josh og Jeremy Salyers sem eru líka eineggja tvíburar. Þau kynntust á hátíð fyrir eineggja tvíbura en hún fór fram í Ohio í Bandaríkjunum.
New York Times segir að hjónin hafi eignast syni sem fæddust með nokkurra daga millibili.
Hjónin birtu myndir af drengjunum, sem heita Jett og Jax, á Instagram (þau eru með sameiginlegan Instagramaðgang) þar sem þau segja þá vera „frændur, erfðafræðilega bræður og tvíbura að fjórða hluta“.
Margir tjáðu sig um skrif þeirra og virtust ringlaðir og skildu ekki hvað hjónin áttu við en nokkrir áttuðu sig á því.
„Mæður þeirra og feður eru eineggja tvíburar. Bæði foreldrapörin eignuðust barn. Nákvæmlega sama DNA bjó til þessi börn,“ skrifaði einn notandi.
Annar skrifaði: „Eineggja tvíburar eru með sama erfðaefnið og bæði foreldrapörin eru nákvæmlega eins. Ef þessi fjölskylda færi í DNA-rannsókn myndi niðurstaða vera að drengirnir séu bræður, ekki frændur!“
Þess utan segja margir að þeim finnist drengirnir mjög líkir hvor öðrum.
Bæði hjónin hafa sagt að hugsanlega hafi þau skipulagt hvenær þau stunduðu kynlíf svo þau gætu eignast börn á nánast sama tíma.