Bubbi Morthens, einn ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar, segir frá því á Twitter-síðu sinni í dag að hann hafi mætt geranda sínum og þeir átt samtal með fagaðila. Bubbi segir að í samtalinu hafi gerandinn viðurkennt brot sín.
„Það var ótrúlegur léttir og góð tilfinning þegar gerandi minn viðurkenndi brot sín fyrir framan mig við áttum samtal með fagaðila öll þessi reiði sársauki sem hafði litað lífið er horfinn ég varð loksins frjáls,“ segir hann í færslunni sem hann birti á Twitter.
Bubbi hefur opnað sig um kynferðisofbeldið sem hann var beittur sem ungur maður. „Við sem verðum fyrir ofbeldi sem börn, þeir karlmenn verða ekki langlífir. Þeir beita aðra ofbeldi, misnota áfengi og eiturlyf, deyja úr krabbameini og skilja. Þeir verða á milli tveggja heima einhvern veginn ef þeim ber ekki gæfa til að fá hjálp og vinna úr sínum málum,“ sagði hann til að mynda í viðtali í þættinum Með Loga sem sýndur var á Sjónvarpi Símans í september árið 2018.
Í því viðtali segir Bubbi að ofbeldið hafi breytt öllu lífi hans. „Að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi markar viðkomandi það sem eftir er. Ég tala nú ekki um ef þú nærð ekki að vinna úr því eða gera eitthvað í þínum málum. Vegna þess að þetta markaði öll samskipti mín við konur. Þetta markaði öll samskipti mín við fólk almennt. Þetta eyðilagði samband mitt við sjálfan mig.“