fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Ógnarstjórn byltingarforingjans Bala – Áratuga ofbeldi og heilaþvottur í hjarta heimsborgar

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 24. júní 2023 22:00

Katy fékk ekki að fara út fyrir hússins dyr fyrstu 30 ár ævi sinnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aravindan Balakrishnan fæddist í Indlandi, fluttist ungur til Singapúr og þaðan til Bretlands árið 1963 þegar honum hlotnaðist styrkur til að læra hagfræði í London. Balakrishnan var einlægur kommúnisti sem dáði Maó formann í Kína og fyrirleit ,,fasistaríkið“ Bretland sem hann þó tók sér varanlega búsetu í. Balakrishnan, sem almennt var kallaður félagi Bala, varð virkur í starfi Kommúnistaflokks Bretlands og aðalsprauta mótmælahalda þar sem hann hélt eldheitar ræður og boðaði komandi byltingu. Smám saman safnaði Bala að sér hópi fylgjenda, aðallega ungra hugsjónakvenna, sem héngu á hverju orði hans.

Bala á námsárum sínum.

Ógnarstjórnin hefst

Árið 1974 fékk Kommúnistaflokkurinn nóg af Bala og sparkaði honum út. Tveimur árum síðar höfðu flestir fylgismennirnir gefist upp á Bala, stjórnsemi hans og óútreiknanlegri hegðun. Eftir sat hópur um 10 kvenna sem fluttu ásamt Bala í stórt hús í Suður-London sem Bala kallaði Maó Minningarsetrið. Bala rak Minningarsetrið með harðri hendi. Konurnar voru látnar slíta á öll samskipti við fjölskyldur sína, máttu ekki tala án leyfis, ekki klæðast öðru en einkennsibúningi kínverskra kommúnista, ekki fara einar út, ekki sýna hvor annarri vináttu og þær sem voru útivinnandi urðu að láta laun sín í hendur Bala. Reyndar breyttust reglurnar reglulega upp úr þurru, allt eftir dyntum Bala.

Einmana í leit að tilgangi

Byltingaráköll Bala höfðu orðið til þess að lögreglan fylgdist náið með honum og árið 1976 réðst hún til inngöngu í Minningarsetrið í fíkniefnaleit. Ekki tókst að sanna glæpsamlegt athæfi upp á íbúana en Bala sá sæng sína útbreidda og fór í felur ásamt sínum dyggustu stuðningsmönnum, allt konum. Meðal þeirra voru tansanísk eiginkona, Chanda, sem Bala hafði kynnst á námsárunum, fötluð systir hennar Shobna, írski fiðluleikarinn Joshepine Herivel, Aishah Wahab, undrabarn á sviði eðlisfræði sem hafði flutt frá Malasíu til framhaldsnáms en snúið við því baki til að fylgja Bala, svo og ungur og efnilegur lögfræðingur, Sian Davies. Allt voru þær ungar og hámenntaðar konur sem áttu framtíðina fyrir sér en voru að sama skapi einmana og leitandi að tilgangi í lífinu.

Móðir Katy, Sian Davies, fylgdi Bala í blindri hollustu.

Einangun og heilaþvottur

Bala sannfærði konurnar um að hann væri kallaður til af æðri máttarvöldum til bjargar heiminum, kvaðst lesa hugsanir, vera ódauðlegur og hafa fulla stjórn á náttúruöflum og gangi reikistjarna. Máttur hans væri slíkur að hann gæti kallað fram sóttir, dauða og náttúrhamfarir að vild. Einangrunin varð algjör og heilaþvotturinn slíkur að konurnar töldu það bráðan bana að yfirgefa Bala, ekkert biði nema kvalafullur dauðdagi af hendi útsendara fasista sem Bala sá í hverju horni. Bala beitti konurnar óspart andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi nema eiginkonu sína Chöndu, þá einu sem hann lagði aldrei hönd á. Þær voru meðal annars látnar drekka sæði hans sem Bala sagði hafa heilunaráhrif.

Sian var sterkefnuð og fyrstu árin lifði hópurinn á hennar fé. Þegar það var uppurið drógu þau fram lífið á félagslegri aðstoð sem Bala hafði látið þær skrá sig á auk örorkugreiðslna Shobnu og ummönnunargreiðslna Chöndu.

Katy Morgan-Davies

Jackie

Meðal stjórntækja Bala var ,,Jackie“, uppdiktað ofurvopn, framleitt af vinum hans í Kína. Ekkert hræddi konurnar meira en Jackie, sem undir leiðsögn Bala, hafði óskorað vald og getu til að stjórna heiminum. Hélt Bala stöðugt fram hótunum um misþyrmingar og dauða af völdum Jackie til að knésetja konurna og kúga, jafnvel þótt enginn berði tólið nokkru sinni augum. Sem dæmi um trú þeirra á mátt Jackie má nefna að þegar geimskutlan Challenger fórst árið 1986 trúðu þær skýringu Bala sem sagði Jackie hafa sprengt upp geimskutluna í refsingarskyni fyrir óhlýðni þeirra og brotnuðu þær í kjölfarið saman af samviskubiti. Jafnvel eftir frelsun úr ánauðinni héldu þær áfram að óttast Jackie og hélt Aishah því til að mynda staðfastlega lengi fram að bæði hvarf Malasyan Airlight 370 þotunnar árið 2014 og hryðjuverkin í Paris ári seinna væru af völdum vélarinnar.

Bylting ástarinnar 

Árið 1983 varð Sian Davies barnshafandi af völum Bala, sem ávallt hafði bannað barneignir, en ákvað nú að leyfa Sian að ala barnið. Sian fæddi stúlku sem nefnd var Prem Maopinduzi sem þýða má Bylting ástarinnar. Sian gerði sér að góðu að láta barnið umsvifalaust í hendur Bala sem tilkynnti konunum að telpan væri eign hópsins og hennar eini tilgangur hér á jörð væri að að taka síðar við kyndli byltingarinnar.

Bala eftir handtökuna.

Prem, sem síðar breytti nafni sínu í Katy, var aldrei snert, hvað þá föðmuð eða sýnt nokkuð atlæti þar sem Bala hélt því fram að stúlkan yrði lesbísk við snertingu kvenna. Fyrstu árin kom það þó einstaka sinnum fyrir að konurnar sýndu Katy einhvern vott af ástúð en skelfilegar barsmíðar Bala í refsingarskyni urðu til þess að þær létu alfarið af því.

Æska einsemdar og ofbeldis

Katy átti einmanalega og ástlausa æsku. Hún hafði enga vitneskju um foreldra sína, var læst svo dögum saman inni í litlu herbergi og barin miskunnarlaust í tíma og ótíma og gekk  Sian hvað harðast fram í ofbeldinu. Hún mátti ekki yfirgefa íbúðina og gekk ekki í skóla en var kennt að lesa og skrifa af meðlimum hópsins.

Katy hitti aldrei önnur börn né fékk hún að gera neitt það sem flestir telja eðlilegt, svo sem leita til læknis eða tannlæknis, fara í verslun eða í klippingu. Hún var orðin 19 ára þegar Bala leyfði henni í fyrsta skipti að horfa á sjónvarp sem hann hafði í læstu herbergi. Bala áleit sig mikinn hugsuð og því var íbúðin full af bókum um heimspeki og stjórnmál sem hann sankaði að sér án þess þó að opna nokkru sinni. Katy las þær aftur á móti spjaldanna á milli auk Hringadróttinssögu og Harry Potter bókanna, sem Bala taldi af einhverjum ástæðum vera andkapítalískar og þar leiðandi boðlegt lesefni. Þess á milli sat Katy við gluggann og horfði út, reyndi að temja mýsnar sem voru um alla íbúðina og velti fyrir sér hvernig líf fólksins sem gekk eftir gangstéttinni væri.

Katy eyddi fyrstu 30 árum ævi sinnar í þessu herbergi.

Hörmuleg endalok Sian

Árið 1996 hafði áratuga innilokun, heilaþvottur og ofbeldi rænt Sian geðheilsunni. Hún vakti sólarhringum saman, grét, sá sýnir og reyndi að skaða sig með hnífi. Á aðfangadagskvöld sama ár vaknaði þá 13 ára gömul Katy við öskur og kom að Sian liggjandi á gólfinu, bundinni á höndum og fótum, og stóðu Bala og Chanda yfir henni og skiptust á um að sparka í hana. Á jóladagsmorgun fannst Sian síðan á steyptri stéttinni fyrir utan húsið og hafði þá stokkið eða verið hrint út um glugga. Við komu á sjúkrahús var ljóst að Sian var lömuð fyrir neðan háls. Hvort samviskan hreyfði við Bala er erfitt um að segja en að nokkrum dögum liðnum sagði hann Katy að Sian væri móðir hennar og hóf að fara með hana vikulega í heimsóknir að sjúkrabeðinu. Katy átti erfitt með að skilja hugtakið móðir og vissi ekki hvernig hún ætti að taka fréttunum. Hún fann fyrir löngun til að tala við nýfundna móður sína, konuna sem þó hafði misþyrmt henni svo mjög í gegnum árin. Aftur á móti var Sian sjaldnast með meðvitund og lést fjórum mánuðum síðar án þess að Katy gæfist tækifæri til að tala við móður sína. Lögregla hóf rannsókn  á falli Sian en ekkert kom út úr henni og var málið látið niður falla.

Bala og eiginkona hans Chanda á leið í réttarsal. Chanda var aldrei kærð.

HJÁLP

Eftir því sem Katy varð eldri fór hún að átta sig betur á að líf hennar væri langt frá því að vera eðlilegt og fór hún smám saman að efast um alræðisvald Bala. Þegar hún uppgötvaði að Jackie myrti hana ekki fyrir þessar ,,óhreinu“ hugsanir tók hún upp á því að halda uppi blaði sem hún hafði skrifað á ,,HJÁLP“ að glugganum án árangurs. Blaðið var of lítið og glugginn of skítugur og of langt frá götunni til að nokkur sæi ákall hennar. Ævilöng kúgun, heilaþvottur og ótti kom aftur á móti í veg fyrir að Katy þyrði að reyna flótta úr vítisvistinni sem hélt áfram, ár eftir ár eftir ár.

Katy var orðin þrítug þegar hún sá auglýst neyðarnúmer samtaka sem berjast gegn þrælahaldi og lagði hún númerið á minnið. Þar sem Katy mátti ekki yfirgefa húsið ein síns liðs ákvað hún að leita liðsinnis hjá einhverjum með meira ferðafrelsi og hóf að reyna að sannfæra hina 57 ára gömlu Josephine Herivel um að þær væru í lífshættu. Katy vissi fyrir víst að Josephine myndi tilkynna Bala hvaðeina sem um hann væri sagt og tók því til þess ráðs að segja Josephine að þær væru í bráðri lífshættu af völdum Chöndu. Josephine lagði trúnað á orð Katy og náði að verða sér út um farsíma sem hún smyglaði inn í húsið. Katy lét Josephine umsvifalaust hringja í neyðarnúmerið og kalla eftir hjálp.

Katy í viðtali sem tekið var í tilefni af útgáfu ævisögu hennar árið 2018.

Flóttinn

Flóttinn var vandlega skipulagður og klukkan nákvæmlega 11 að morgni þann 23. október 2013, þegar Bala og Chanda voru í sinni vikulegu innkaupaferð, hlupu þær Katy og Josephine út þar sem þau Yvonne Hall and Gerard Stocks biðu þeirra við bíl sem ekið var í snarhasti í frelsið. Þegar Katy og Josephine höfðu sagt ótrúlega sögu sína var umsvifalaust hringt á lögreglu sem handtók þau Bala og Chöndu samdægurs. Hin 69 ára gamla Aishah var aftur á móti send í athvarfið þar sem Katy og Josephine tóku fagnandi á móti henni. Yvonne og Gerard höfðu hjálpað þolendum mansals og þrælahalds til áratuga en höfðu aldrei séð neitt þessu líkt. Engin kvennana gat til dæmis sagt setningu ein síns liðs heldur hóf ein hana, önnur hélt áfram og sú þriðja kláraði hana. Auk þess töluðu þær sérkennilegan blending ensku, indversku og malæísku, prívat tungumál sem erfitt var fyrir aðra að skilja.

Nýr heimur

Konurnar höfðu ekki yfir félagslegri færni að bera að nokkru ráði og áttu í stökustu erfiðleikum með að taka ákvörðun á eigin spýtur um einföldustu hluti á við hvort þær vildu vatnsglas eða þyrftu á klósettið. Svo háðar voru þær hvor annarri að þær neituðu að fara svo mikið sem á milli herbergja nema í sameiningu. Katy var eðli málsins samkvæmt verst farin af þremenningunum. Yvonne og Gerard útskýrðu síðar að hún hefði verið eins og fjögurra ára barn að flestu leyti, gengið út í umferð á móti bílum og starað sem lömuð á auglýsinaskilti og umferðarljós. Katy var heilluð af búðargluggum og gat eytt mörgum klukkustundum í að ganga á milli glugga þrátt fyrir eiga erfitt með gang eftir þriggja áratuga inniveru í fjögurra herbergja íbúð. Hún hafði aldrei séð tölvu, vissi ekki hvað internet var og kunni ekki á einföldustu heimilistæki á við brauðrist eða hárblásara.

Aishah Wahab eftir frelsunina

Í árslok árið 2015 var Bala dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir illa meðferð á barni, frelsisviptingar, nauðganir og líkamsárásir. Chanda var aldrei ákærð vegna skorts á sönnunum.

Sá eftir ,,svikunum“

Konunum þremur var úthlutuð varanleg vist á áfangaheimilinu og við tók erfið aðlögun fjölda sérfræðinga sem unnu að því nótt sem dag að hjálpa þeim að fóta sig í veröld sem þær hræddust mjög.  Josephine kunni hinu nýja lífi illa og sagðist harma það sem hún kallaði ,,svik“ við Bala. Ráðgjafar reyndu hvað sem þeir gátu, til að mynda var keypt fiðla handa henni auk þess sem ættingjar hennar lögðu sitt á vogarskálarnar en án árangurs. Josephine hafnaði á endanum allri frekar hjálp, sneri alfarið baki við fjölskyldu sinni og flutti út af heimilinu, buguð af samviskubiti og söknuði eftir fyrra lífi.

Aishah fagnaði aftur á móti hjálpinni og að því kom að hún treysti sér til að yfirgefa áfangaheimilið og flytja í eigin íbúð. Háaldraðar systur hennar flugu frá Malasíu til að hitta litlu systur sína í fyrsta skipti í 40 ár en fjölskyldan hafði talið hana látna.

Josephine hafnaði allri hjálp og sór Bala ævarandi trúnað.

Loksins eigin lykill

Katy þurfti eðlilega mikla hjálp við átta sig á heimi sem var henni algjörlega framandi á allan hátt. Hún sýndi aftur á móti fádæma dugnað og ákveðni og gat flutt í eigin íbúð aðeins 14 mánuðum eftir frelsunina, mun fyrr en nokkurn hafði dreymt um. Hún eignaðist fjölskyldu þegar systkini Sian stigu fram með opna arma og smám saman fyrirgaf hún móður sinni sem hún sagði einnig hafa verið fórnarlamb Bala.  Katy skráði sig í skóla og hóf nám í ensku og stærðfræði. Henni gekk vel í náminu en átti öllu erfiðara að fóta sig félagslega og forðaðist samskipti við fólk.  Árið 2016, þremur árum eftir flóttann, taldi Katy rétt að stíga skrefið til fulls í átt að bata, aflétti nafnleynd og sagði sögu sína. Í viðtali sem tekið var við Katy það sama ár lýsti hún hamingjunni sem fylgdi frelsinu sem flestir taka sem sjálfgefnu. Hún lýsti í einlægni gleðinni yfir að uppgötva hluti á borð við snyrtivörur og þeirri einstöku tilfinningu að eiga loksins eigin lykil og geta komið og farið að vild. Hún sagðist einnig hafa fyrirgefið föður sínum og fyndi til samúðar yfir fangelsun hans því hún þekkti sjálf innilokun alltof vel.

Katy skrifaði ævisögu sína, Caged Bird,  sem kom út 2018.  Hún býr í London og farnast vel.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“