Ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano sérhæfir sig í félagaskiptafréttum af knattspyrnumönnum. Hann hefur undanfarin ár sannað sig sem einn sá allra traustasti í þessum efnum. Gríðarlega margir fylgjast með Romano á samfélagsmiðlum, einna helst X þar sem hann hefur tæpar 23 milljónir fylgjenda. Þar bíður fólk eftir að sjá nýjustu fréttir af félagaskiptum stórstjarna fótboltans.
,,Fyrsta fréttin“
Hinn 31 ára gamli Romano hóf feril sinn í blaðamennsku sem unglingur í Napólí á Ítalíu, heimaborg sinni. Þar skrifaði hann fréttir af knattspyrnu fyrir smærri miðla, algjörlega ókeypis.
Upphafið að velgengni Romano var þegar hann komst óvænt í samband við mann sem starfaði í La Masia, frægu unglingastarfi Barcelona. Sá vildi gerast umboðsmaður. Romano segist ekki vita hvernig þessi maður komst yfir nafn sitt. ,,Hann var að starfa hjá La Masia og vildi gerast umboðsmaður. Hann vildi sannfæra tvo unga leikmenn um að ráða sig sem umboðsmann og hann spurði mig um að skrifa skýrslu um þá.“ Þessir leikmenn voru Gerard Deulofeu, sem átti eftir að leika fyrir lið á borð við Barcelona og Everton, og Mauro Icardi, öllu þekktari leikmaður sem hefur spilað fyrir lið á borð við Inter og Paris Saint-Germain.
Romano gerði eins og maðurinn bað hann um. Það gekk vel og fékk þessi maður að gerast umboðsmaður leikmannanna. Þeir héldu sambandi og fékk Romano að greina frá því þegar 18 ára gamall Icardi fór frá Barcelona til Sampdoria. Romano sagði stoltur frá því að það hafi verið hans fyrstu fréttir.
Stóra tækifærið
Icardi var hins vegar lítt þekkt nafn á þessum tíma. Það var tveimur árum síðar, árið 2013 sem Romano fékk stóra tækifærið, tvítugur að aldri. Þá vildi umboðsmaðurinn endurgjalda Romano greiðann enn frekar og lét hann vita af því á miðju tímabili að Icardi myndi yfirgefa Sampdoria fyrir Inter sex mánuðum síðar. Romano ,,skúbbaði“ fréttinni, fyrstur allra, á aðdáendasíðu Inter.
,,Þá breyttist allt,“ sagði Romano. Hann yfirgaf Napólí og flutti sig til Mílanó. Þar fékk hann sitt fyrsta stóra starf í fjölmiðlum hjá Sky Sport Italia. Fyrir stöðina fjallaði hann einmitt um læknisskoðun Icardi hjá Inter.
Hjá Sky Sport hitti Romano fyrir Gianluca Di Marzio, afar virtan blaðamann á sviði knattspyrnu. Sá aðstoðaði Romano við að komast betur inn í hefðbundna hlið knattspyrnufrétta eins og tíðkaðist á sjónvarpsstöðinni. Í staðinni hjálpaði Romano Di Marzio við að byggja upp sterkari persónulegan prófíl, eins og á samfélagsmiðlum. ,,Í mörg ár fór ég um borgina á hverjum degi, á veitingastaði, hótel og á hvaða staði sem er þar sem fólk í knattspyrnuheiminum gæti verið,“ sagði Romano.
Flutti sig á alþjóðlegan vettvang
Það breytti ansi miklu fyrir Romano þegar hann áttaði sig á því að hann gæti flutt félagaskiptafréttir utan Ítalíu einnig. Það var árið 2020 þar sem hann tók stærsta skrefið í þeim efnum og tilkynnti um félagaskipti Bruno Fernandes frá Sporting til Manchester United. Hann var ekki sá fyrsti með þær fréttir. Hann segir það þó ekki alltaf það mikilvægasta. ,,Það sem fylgjendur mínir vilja meira en allt annað er að það sem þeir lesi sé satt. Ég skrifa hluti þegar þeir eru tilbúnir,“ sagði Romano. Hann notar einmitt alltaf þriggja orða setningu þegar hlutirnir eru ,,tilbúnir“ eins og hann orðar það: Here we go! Þessi setning hans er orðin ansi fræg. Margir knattspyrnuaðdáendur líta á það sem svo að þegar Romano skrifar þessi þrjú orð á samfélagsmiðla, þá séu félagaskipti staðfest, svo mikill er áreiðanleiki Ítalans.
Þessi setning hans er orðin svo fræg að leikmenn og félagslið nota hana gjarnan einnig. Félög kynna leikmenn jafnvel inn með þessum orðum og leikmenn gefa í skyn að þeir séu á förum sömuleiðis.
Eins og gefur að skilja er Romano sérstaklega upptekin þegar félagaskiptagluggar eru opnir. Þá segist hann gjarnan vaka til klukkan 5 á morgnanna.