fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Glódísirnar sem duttu í sundur – Átakanleg örlög stúlknanna sem lýstu í myrkri

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 20. febrúar 2022 16:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hin 18 ára Grace Fryer gat ekki hamið gleði sína þegar hún fékk starf hjá United States Radium Corporation (USRC) i New Jersey á vormánuðum árið 1917. Um var að ræða einhvern eftirsóttasta vinnustað landsins fyrir konur enda greiddi USRC laun sem voru vel fyrir ofan við það sem ómenntuð kona gat gert ráð fyrir að afla á fyrstu áratugum síðustu aldar.

Grace Fryer

Ráðning Grace átti ekki aðeins eftir að breyta lífi hennar, hún breytti lífi milljóna manna og kvenna.

Sagt að sleikja pensilinn

Þegar þarna var komið við sögu höfðu Bandaríkin nýlega hafi þátttöku í fyrri heimsstyrjöldinni og þustu ungar konur út á vinnumarkaðinn til að leggja bræðrum og unnustum lið í stríðsátakinu. Grace var í þeirra hóp enda höfðu tveir bræðra hennar verið sendir á vígstöðvarnar. Um 20 ár voru liðin frá því að Marie Curie fann geislavirka efnið radium sem hefur þann eiginleika að glóa í myrkri og datt einhver

Stúlkurnar voru látnar bleyta pensilinn með tungunni.

niður á þá bráðsnjöllu hugmynd að selja hernum úr sem gerðu hermönnunum fært að sjá hvað tímanum liði, óháð birtuskilyrðum. Hóf USRC fyrst fyrirtækja að ráða til sín ungar stúlkar með netta fingur til að mála fíngerðar tölurnar á úrunum með sjálflýsandi radium málningu. Smám saman fjölgaði mjög sambærilegum verksmiðjum, bæði í Bandaríkjunum og Kanada. 

Fyrsta daginn á nýja vinnustaðnum var Grace kennt hvernig bera ætti sig að við málunina. Oddurinn á penslinum þurfti að vera þráðbeinn og örmjór og besta leiðin til að halda honum þannig var að bera hann upp að tungunni á milli úra. Grace hikaði en var sagt að að vera óhrædd, radium málningin hefði góð áhrif á heilsuna og hún mætti teljast heppin að njóta hennar ókeypis. Radium hafði yfir sér ævintýrablæ á þessum árum og var jafnvel notað í snyrtivörur til að ná fram ljóma á húð og tönnum. 

Eins og upplýstir draugar í ævintýri

Stúlkurnar í verksmiðjunni voru fljótar að átta sig á að hvernig nýta mætti vinnustaðinn, settu radium í hár og á tennur og komu með sparikjólana í vinnuna svo þeir gætu sogið í sig efnið. Í lok vinnuvikunnar fóru þær saman á dansleiki í radium mettuðu kjólunum og svifu um í rökkrinu eins og upplýstir draugar í ævintýri.

Úr radiumverksmiðju

Glóstúlkurnar þekktust langar leiðir vegna daufrar birtunnar sem smám saman fór að umlykja þær eftir því sem þær unnu lengur við málunina. Þær þóttu allra kvenna glæsilegastar, voru öfundaðar af kynsystrum sínum og töldu lífið varla geta orðið betra. Eða svo héldu stúlkurnar sem stungu geislavirku penslunum upp í sig ótal sinnum á dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár.

Hættur af völdum radium voru þó þekktar og lét fyrirtækið aðra starfsmenn, til að mynda í rannsóknarstofu og verksmiðju, vera með blýsvuntur og hanska við meðhöndlum á efninu. Það var aftur á móti ekki talið nauðsynlegt að verja stúlkunar þar sem álitið var að radium í litlum skömmtum væri ekki hættulegt heldur þvert á móti heilsusamlegt.

Eða að öllum stóð á sama um ungu stúlkurnar á verksmiðjugólfinu.

Fyrsta dauðsfallið  

Í maí árið 1922 fékk samstarfskona Grace, Mollie Maggia, tannverk og hélt á fund tannlæknis. Sá dró úr henni tönn og var hann ekki fyrr búinn en hana fór að verkja í næstu tönn og svo koll af kolli. Eftir því sem tennurnar duttu úr Mollie uxu í þeirra stað kýli, full af blóði og greftri. Smám saman breiddi óbærilegur verkur sig út um líkama hennar og missti Mollie getuna til að hreyfa sig. Að nokkrum vikum liðnum hafði Mollie misst allar tennur og var andlit hennar orðið að einu stóru graftarkýli.

Verksmiðjustúlkurnar á góðri stundu. Mollie Maggia er þriðja frá hægri.

Svo kom að því að læknir snerti varlega við andliti hennar við rannsókn og varð skelfingu lostinn þegar kjálkabein Mollie datt af eins og það lagði sig. Líkami Mollie var að hrynja í sundur, bein fyrir bein.  Mollie lést kvalarfullum dauðdaga í desember sama ár, aðeins 24 ára gömul.

Kenndu sýfilis um

Meðan á banalegu Mollie stóð byrjuðu fleiri verksmiðjustúlkur að veikjast, meðal þeirra Grace, og fylgdu þær Mollie eftir í gröfina, hver á fætur annarri. Þeim var þá orðið ljóst veikindin voru af völdum radium málningarinnar en USRC harðneitaði að hlusta í þær í næstum tvö ár. Þá hafði sala á vörum fyrirtækisins dregist mjög saman og sáu forsvarsmenn enga aðra leið í stöðunni en að hefja sjálfstæða rannsókn á tengslum radium málningarinnar og dauðsfalla stúlknanna. Niðurstöður rannsóknarinnar voru afgerandi; dauði stúlknanna var alfarið radium geislun um að kenna. Forstjórinn varð æfur, lét fleygja niðurstöðunum og falsa nýja skýrslu til yfirvalda þar sem öllum tengslum var alfarið hafnað. Því næst hóf fyrirtækið ófrægingarherferð á fætur stúlkunum þar sem meðal annars var fullyrt að dauðsföllin væru af völdum sýfilissýkingar.

Eins stúlknanna með hinn alræmda ,,radium kjálka“.

Dauðadómur

Stúlkurnar sem eftir lifðu voru ekki aðeins fárveikar, þær voru líka bláfátækar, enda hafði hver aur farið í læknisaðstoð. Þær misstu móðinn enda virtist hvergi von að finna. Ekki komst skriður á málið fyrr en karlkyns starfsmaður USRC lést árið 1925 og yfirvöld gripu til að láta fara fram sjálfstæða rannsókn. Læknir að nafni Harrison Martland var settur í málið og sannaði hann í eitt skipti fyrir öll að radium geislun væri banamein stúlknanna. Martland útskýrði í skýrslu sinni hvernig radium sest í innanverð bein líkamans og myndar holur í þeim þangað til þau eyðast og detta í sundur á meðan sjúklingurinn var enn lifandi. Ekkert væri unnt að gera við geislun, hún væri dauðadómur. Geislun verksmiðjustúlknanna var langtum verri en annarra þar sem þær innbyrtu radium, ólíkt þeim sem aðeins voru í snertingu við það.

Stúlkurnar í verksmiðjunni voru allt niður í 14 ára gamlar.

Ákall eftir réttlæti

Þegar þarna var komið við sögu var hryggurinn á Grace að falla saman og var hún vafin sterkri stálgrind. Faðir hennar var leiðtogi verkalýðsfélags og hafði hann innrætt börnum sínum að standa í fæturna ef þau væru beitt órétti. Eftir að skýrslan var birt stigu Grace og nokkrar vinkonur fram, undirlagðar af krabbameini og að þrotum komnar, og kölluðu eftir réttlæti til handa öllum radium stúlkum, hvar sem þær væri að finna. En illa gekk að fá lögfræðing til að taka að sér málið þar sem enginn treysti sér ekki til að takast á við sterkefnað stórfyrirtæki, hvað þá með lítinn sem engan

Grace og vinkonur hennar í baráttunni. Ein var nánast fótalaus þar sem beinin voru horfin.

lagaramma til stuðnings. Árið 1927 steig loksins ungur lögfræðingur, Raymond Berry, fram og bauð fram aðstoð sína. Grace og og fjórar eftirlifandi vinkonur hennar áttu þá aðeins örfáa mánuði ólifaða og sáu ekki fram á að lifa til að sjá réttlætinu náð fram í dómsal. Þær neyddust til að semja um málið til að eiga fyrir útfararkostnaði en ásamt Berry gjörnýttu þær síðustu vikur lífs síns til að láta í sér heyra með þeim afleiðingum að sorgarsaga radium stúlknanna rataði á síður flestallra blaða Bandaríkjanna. Grace Fryer lést með frið í hjarta, vitandi að loksins hefðu glóstúlkurnar fengið rödd.

Létu ræna beinum látinna

Catherine gaf vitnisburð frá dánarbeði. Hún lést nokkrum dögum síðar.

Meðal þeirra sem lásu um baráttu Grace og félaga var Catherine Donohue, sem var verksmiðjustúlka hjá Radium Dial í Illinois. Hún hafði horft á eftir starfssystrum sínum veikjast og vissi að hún væri næst, veikindin voru byrjuð að þjaka hana. Hún var ákveðin í að halda áfram baráttu Grace og hóf málarekstur á hendur Radum Dial. Fyrirtækið gaf ekkert eftir í baráttunni og gekk svo langt að láta útsendara ræna beinum látinna verksmiðjustúlkna til að ekki væri unnt að prófa þau fyrir radium geislun. Catherine og vinkonur hennar gáfust aldrei upp og tókst þeim á endanum að draga fyrirtækið fyrir dóm árið 1938. Þá var Catherine orðin of veik til að geta vitnað í dómsal en lét taka af sér vitnisburð á dánarbeðinu.

Catherine vann málið og varð fyrsti launþegi Bandaríkjanna til að láta fyrirtæki bera beina ábyrgð á tengslum vinnuumhverfis og heilsu. Barátta Grace, Catherine og glóstúlknanna átti stóran þátt í því að vinnulöggjöf á Vesturlöndum var gjörbreytt til þess sem við teljum eðlilegt í dag. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár