Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir tilraun til brots gegn blygðunarsemi.
Málið á rætur að rekja til þess að lögreglu barst ábending í september árið 2018 um myndskeið sem var í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem sjá mátti samskipti milli tveggja aðila á vefnum einkamál.is og upptöku frá því að karlmaður á sextugsaldri mætti til að hitta, það sem hann taldi vera unglingsstúlku, en var í reynd karlmaður á þrítugsaldri, Jóhannes Gísli Eggertsson, sem hafði villt á sér heimildir.
Málið vakti mikla athygli þegar það kom fyrst upp árið 2018. Jóhannes, sem þá hélt úti vinsælum Snapchat-aðgangi, greindi frá því í viðtölum að hann héldi úti mörgum aðgöngum á einkamál.is og Skype þar sem hann reyndi að leiða menn í gildru með því að þykjast vera 14 ára gömul stúlka.
Hann lokkaði þá til fundar við „sig“ og brá þeim svo í brún þegar hann birtist sjálfur á staðnum og hellti sér yfir mennina. Var Jóhannes Gísli í kjölfarið ýmist hylltur sem hetja eða gagnrýndur fyrir að beita vafasömum aðferðum til að bókstaflega hvetja menn til brota í þeim tilgangi að taka þá svo af lífi opinberlega. Jóhannes sagðist sjálfur vera þolandi barnaníðs og því væri málið honum sérstaklega mikilvægt.
Maðurinn sem nú hefur hlotið dóm eftir samskipti sín við Jóhannes sagði fyrir dómi að hann hafi komist í samband við „unga stúlku“ á síðunni einkamál.is en bar því við að honum hafi ekki verið kunnugt um aldur hennar og hafi ekki séð af henni myndir.
Maðurinn hafi aðeins ætlað að hitta stúlkuna til að „gefa henni ís“ og hafi ætlað með hana í uppáhalds ísbúð hennar. Samskipti þeirra á netinu hafi verið um allt milli himins og jarðar en ekki kynferðisleg.
Jóhannes Gísli bar vitni í málinu þar sem hann sagði að hann hafi búið til aðganginn og kynnt sig fyrir manninum sem „14 ára stúlku“ og auk þess gefið ákærða upp netfang til að komast í samband við „hana“ ef henni yrði hent af einkamál.is sökum ungs aldurs. Samræður við manninn hafi verið kynferðislegar og hafi ákærði sjálfur átt frumkvæðið að því að hitta „stúlkuna“.
Meðal gagna í málinu voru útprentuð samskipti ákærða og meintrar 14 ára stúlkunnar.
Þar kom meðal annars eftirfarandi fram:
„Ehmm…. ég verð að byrja á að segja þér að ég er 14 ára :P haha truflar það þig nokkuð?“
„Nei það gerir það ekki ertu með email sem eg ma fa til að tina þer ekki þegar em kemst að því hvað þu ert gömul?“
Maðurinn spurði „stúlkuna“ einnig að eftirfarandi:
„fiktar þu stundum i þér“
„langar þér mikið að prufa“
„hefur þu seð tippi“
„langar þer að prufa?“
„Hefur þu seð mörg tippi“
„Langar þer að sja“
„Ertu i g streng“
„A myndir af honum miss horðum viltu sja???“
Hann bað svo stúlkuna að hitta sig og tilkynnti hún honum þá að það væri pabbahelgi hjá henni en pabbi hennar væri þó í vinnunni á kvöldin og því ætti hún að komast þá að hitta manninn.
Ákærði hélt því fram fyrir dómi að hann hafi talið að stúlkan væri 18 ára þar sem reglur einkamál.is kvæðu á um að aðeins lögráða einstaklingar mættu nota síðuna. Hafi hann ætlað að hitta stúlkuna til að sannreyna aldur hennar. Fyrir dómi kom einnig fram að maðurinn sendi stúlkunni mynd af getnaðarlim sínum.
Jóhannes Gísli tók fram fyrri dómi að hann hafi móðgast að samskiptum sínum við manninn „…honum þætti samskiptin öll ógeðsleg og honum hefði ofboðið samskipti ákærða við hina tilbúnu stúlku.“
Dómari leit til þess að samskiptin sem lögð voru fram milli mannsins og meintrar stúlku bæru með sér að manninum hafi verið fullkunnugt um meintan aldur hennar. Þrátt fyrir þá vörn mannsins, að hann hafi talið sig vera að ræða við eldri stúlku, þá hefði hann viðhaft kynferðislegt tal og sent mynd af lim sínum áður en hann ákvað að „sannreyna“ aldur hennar, eins og maðurinn hafði borið fram. Því hafi hann í það minnsta látið sér í léttu rúmi liggja að viðmælandi hans kynni að vera barn að aldri.
Maðurinn var ákærður fyrir bæði tilraun til brots gegn blygðunarsemi sem og tilraun til brots gegn barnaverndarlögum. Dómari féllst á að maðurinn hafi gerst sekur um fyrra brotið þar sem myndsending af getnaðarlim var til þess fallin að særa blygðunarsemi viðtakanda sem ákærði hafi látið sér í léttu rúmi liggja hvort væri 14 ára stúlka. Hins vegar væri ekki hægt að heimfæra brotið undir refsiákvæði barnaverndarlaga þar sem lögin kvæðu ekki á um að tilraunaverknaður væri refsiverður.
Dómari tók tillit til þess við ákvörðun refsingar að nokkur dráttur hafði orðið á rannsókn málsins, en það hafi komið upp í byrjun september 2018 og var ákærði ekki fenginn í skýrslutöku fyrr en í apríl 2019 og ekki fengist betur séð en að rannsókn hafi ekki lokið fyrr en í byrjun árs 2020 og legið svo í dvala þar til ákæra var gefin út 2. september 2021. Maðurinn hefði þar að auki ekki áður sætt refsingu samkvæmt sakavottorði.
Því var maðurinn dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Í kjölfar þess að málið komst fyrst upp árið 2018 var rifjaður upp litríkull ferill Jóhannesar Gísla sem þá hafði ítrekað verið dæmdur fyrir auðgunarbrot.
Sjá einnig: Jóa Lífið:Litríkur ferill Jóhannesar Eggertssonar
Hann var einnig í júlí á síðasta ári ákærður ásamt föður sínum og sex öðrum fyrir aðild að Ábyrgðasjóðsmálinu svokallaða, en þeim er gert að sök að hafa með sviksamlegum hætti fengið fé úr Ábyrgðasjóði launa á tímabilinu 2008-2016.