Orðið á götunni er að ónefndur sendiherra Íslands sé nú staddur í Suður-Ameríku. Sú heimsálfa hefur upp á margt að bjóða og þeir sem þangað fara eru gjarnan uppnumdir af fegurð hennar og menningu, enda afar fjölbreytt, falleg og ægileg í senn.
Menning og hefðir annarra landa fara þó ekki ávallt saman við menningu og gildi íslendinga og þykir það því nokkuð merkileg upplifun fyrir bleiknefja frá Íslandi að ganga fram á kvennabúr, jafnvel þó um lífsreyndan sendiherra sé að ræða. Slík búr hafa ekki tíðkast á Íslandi, en til glöggvunar skal tekið fram að kvennabúr er ekki annað nafn yfir hefðbundið kvennafangelsi, þó svo frelsissvipting komi við sögu í báðum tilfellum.
Orðið á götunni er að umræddur sendiherra hafi birt mynd af hinu sögufræga kvennabúri á samfélagsmiðlum, en láðst að greina frá samhengi erindagjarða sinna, sem geti valdið ákveðnum misskilningi, þar sem saga kvennabúra í Suður-Ameríku er kannski ekki almenn vitneskja meðal Frónarbúa.
Tekið skal fram, svo úr verði ekki alþjóðlegt hneyksli og milliríkjadeila, að sendiherrann er ekki í opinberri heimsókn, heldur í fríi á eigin vegum og kvennabúrið sjálft er galtómt og ævafornt.