Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Morgunblaðið hefur yfirlýsingu frá siðanefndinni undir höndum en í henni segir að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli hennar og rektors og að hann hafi lýst eigin skoðun á málavöxtum.
Þessu vísaði Jón Atli á bug í samtali við Morgunblaðið og sagðist ekki hafa haft nein afskipti af málinu og það sé ekki á hans borði. Hann sagðist hafa fengið fyrirspurn frá öðrum aðilanum, sem er í launalausu leyfi frá HÍ, um réttarstöðu hans og hafi hann svarað því bréfi eins og honum beri að gera. Í því felist ekki að hann hafi nein efnisleg afskipti af málinu.
Þegar málinu var skotið til siðanefndarinnar taldi hún að það félli undir hana því seðlabankastjóri væri í „virku ráðningarsambandi“ við HÍ þótt hann sé í launalausu leyfi. Eftir að Jón Atli komst að annarri niðurstöðu taldi nefndin sér ekki sætt lengur.
Í siðanefndinni sátu Skúli Skúlason, formaður, Henry Alexander Henrysson og Sólveig Anna Bóasdóttir.