Allt hefur gengið Framsóknarflokknum í hag undanfarin misseri og ekkert lát virðist ætla að vera á því. Í þessari viku blæs flokkurinn til fundarherferðar og ákvað, upp á von og óvon, að búa til auglýsingar með skírskotun til Disney-myndarinnar Frozen og með undirtextanum „Komdu inn úr kuldanum“.
Fundarherferðin hefst í vikunni og það er eins og við manninn mælt – snjó kyngir niður eins og eftir pöntun. Í auglýsingunum stillir Lilja Alfreðsdóttir sér upp í hlutverki frostprinsessunnar Elsu sem er við hæfi í ljósi bréfasamskipta hennar við sjónvarpsveituna Disney+ þar sem barist var fyrir íslenskum texta á sjónvarpsefni veitunnar.
Þetta er þó síður en svo í fyrsta skiptið sem þingflokkurinn auglýsir fundaraðir þingflokksins í kjördæmaviku með því að leita í smiðju Hollywood. Árið 2020 var svipuð herferð auglýst með tilvísun í meistaraverkið Little Miss Sunshine. Í fyrra voru það svo bandarísku grínþættirnir Friends sem voru fyrirmyndin og vakti sú auglýsing sérstaka athygli.
Nánari upplýsingar um fundarherferð Framsóknarflokksins má nálgast hér.