Hárgreiðslukonan Melkorka Torfadóttir er 32 ára einstæð móðir. Hún kemur fram í nýjasta hlaðvarpsþætti af Einstæð og ræðir um ofbeldissamband sem henni tókst að koma sér úr í lok árs 2021.
Melkorka vill miðla áfram sinni sögu til að vekja athygli á ofbeldi í nánum samböndum því oft verða þolendur ekki varir við rauðu flöggin fyrr en um seinan. Í þættinum segir hún frá upphafi sambandsins og ofbeldisins sem hann beitti hana, hvernig sambandið sjálft var og hvernig henni tókst að enda það.
Melkorka segir frá því hvernig allt virtist fullkomið í byrjun og núna viti hún að þessi hegðun hans í upphafi kallast: „Lovebombing.“ Honum tókst að ná henni alveg á sitt band og brjóta hana síðan niður, þannig að þegar önnur kona reyndi að vara Melkorku við honum þá hlustaði hún ekki.
„Það var stelpa sem sendi mér á Instagram, sagði mér að passa mig á honum og að hann væri ekki góður strákur. Og ég bara geðveikt ástfangin og hellti mér yfir hana […] Ég vildi ekki trúa þessu, en ég er búin að biðja þessa stelpu afsökunar í dag. Og ég hefði betur hlustað,“ segir Melkorka.
Melkorka segir að undir lokin hafi hann beitt hana einhvers konar ofbeldi á hverjum degi.
„Það var daglega, þetta ágerðist og það var í rauninni í ágúst sem að þetta byrjaði að vera mjög slæmt,“ segir hún og bætir við á þeim tíma hafi hún verið að opna hárgreiðslustofu og var frá morgni til kvölds að vinna.
„Honum fannst mjög erfitt að ég væri lítið heima og hvað hann fengi litla athygli. Þá byrjaði þetta að ágerast meira og meira. Fór að fá senda á mig prófíla hjá einhverjum strákum sem ég var að fylgja á samfélagsmiðlum: „Hver er þetta? Þú ert pottþétt búin að ríða honum.“ Ég hugsaði með mér: Hvað er eiginlega í gangi?! Svo þegar ég kom heim þá fékk ég oft ekki að fara að sofa því hann þurfti að ræða hlutina í gegn og koma öllu frá sér,“ segir hún og bætir við að þetta hefði ekki verið samtal, heldur bara hann að halda ræðu yfir henni.
Melkorka segir manninn hafa verið mjög stjórnsaman og hann fór í gegnum símann hennar án leyfis. Í hvert skipti sem hún deildi einhverju á samfélagsmiðlum fór hann í gegnum hverjir höfðu líkað við færsluna og var hún stanslaust á nálum um að gera óvart eitthvað sem myndi reita hann til reiði.
„Ég var hætt að vilja gera hluti fyrir sjálfa mig. Ég var manneskja sem fór í neglur á þriggja vikna fresti og tók reglulega kvöld þar sem ég djúphreinsaði húðina. En þarna var ég hætt því […] Ég var hætt að vilja þrífa mig, eða meira svona einhvern veginn gerðist það bara. Ég hætti að fara í neglur, bara æi þetta skiptir ekki máli.“
Melkorka var komin langt niður og fannst henni vera að mistakast í lífinu. „Mér fannst ég vera að feila sem móðir. Mér fannst ég vera að feila í vinnunni minni og mér fannst ég ömurleg kærasta. Ég brotnaði niður og sagði honum það, og hann sagði að það væri ekki rétt heldur bara allt of mikil pressa á mér „þarna“ – að vinnan væri að gera mig óhamingjusama,“ segir hún.
Á einum tímapunkti reyndi Melkorka að segja fyrrverandi kærasta sínum frá því að hvernig hann væri að koma fram við hana.
„Ég missti alla kynhvöt og sagði honum það og ég sagði honum að hann væri að beita mig andlegu ofbeldi. Ég gerði það í gegnum Snapchat á meðan ég var í vinnunni. Ég tók skjáskot af heimasíðu SjúkÁst.is og dró hring í kringum allt sem hann gerði og sendi honum það og sagði: Þú ert að beita mig andlegu ofbeldi.“
Þegar hún sá að hann hefði séð skilaboðin ákvað hún að eyða þeim. „Ég fór ég í panikk og sat á kaffistofunni í vinnunni og var hrædd um að ég hefði sært hann,“ segir Melkorka og þær ræða það nánar hvernig hennar aðaláhyggjuefni var hvernig honum liði, en það var alltaf það sem skipti öllu máli í sambandinu, hvað hann vildi og langaði.
Góður vinur Melkorku lést í fyrra en hún þorði ekki að syrgja hann af ótta við viðbrögð frá þáverandi kærasta sínum.
„Ég þorði ekki að syrgja vin minn. Það var strákur sem hjálpaði mér mjög mikið þegar ég opnaði Blanco, hárgreiðslustofu sem ég átti, hann týndist á Jet Ski og ég var alltaf mjög stressuð að sýna að ég væri leið og hefði áhyggjur. Þegar það sem mig langaði mest var að fara út og hjálpa þeim að leita […] Þegar það kom í ljós að hann væri dáinn þá þorði ég ekki að syrgja hann. Af því hann spurði mig hvort við værum góðir vinir og ég sagði já, heyrðumst kannski ekki oft en vorum góðir vinir. Hann hafði haft samband við mig nokkrum dögum áður en hann týndist en ég svaraði honum stutt því ég vildi ekki vesen ef fyrrverandi færi aftur í símann minn.“
„Það voru sum kvöld sem hann káfaði á mér, eitt kvöldið fór hann inn á nærbuxurnar mínar, og þegar þetta gerðist og ég ekki til í slaginn þá hugsaði ég: Annað hvort klára ég þetta af og fæ kannski að sofa, eða þá ég þykist vera sofandi og þetta gengur á í smá tíma þar til hann gefst upp og hann verður fúll eða sár daginn eftir þegar við gerðum það ekki. Þannig það var oft sem ég gerði það,“ segir hún.
Hann hafði ákveðnar hugmyndir um hvað kynlíf væri langt og Melkorka þurfti að haga sér á ákveðinn hátt. Ég mátti ekki loka augunum, því þá gæti ég verið að hugsa um annan gaur […] Ég svaf oft hjá honum bara svo hann myndi ekki fara í fýlu eða vera með leiðindi,“ segir hún.
Melkorka rifjar upp þegar hann beitti hana kynferðislegu ofbeldi, en hún áttaði sig á því seinna, eftir ráðgjöf hjá Bjarkarhlíð, að hann hefði nauðgað henni.
„Eina nóttina var ég sofandi og ég vaknaði við það að hann reif mig að sér og reif mig úr og sagði: „Djöfull ætla ég að ríða þér.“ Ég var skíthrædd, mér brá og ég vissi ekki alveg hvað var að gerast. Eftir á var ég enn að fatta þetta og skilja hvað væri í gangi, og hann sagði við mig: „Þú vildir þetta, hvernig fannst þér þetta?“ Ég sagði: „Geggjað“ og var að reyna að telja mér sjálfri trú um að þetta væri eitthvað sem ég vildi,“ segir hún en raunin var önnur.
„Þetta var ekki í fyrsta skipti sem hann gerir svona hluti,“ segir hún og klökknar.
Melkorka komst úr sambandinu í desember og hefur verið í ráðgjöf hjá Bjarkarhlíð síðan og segir að starfsfólkið hafi hjálpað henni ótrúlega. Vinir hennar styðja einnig við bakið á henni og hún vill miðla sinni sögu áfram til að vekja athygli á ofbeldi í nánum samböndum.
Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni hér að neðan.
Á höfuðborgarsvæðinu:
Kvennaathvarfið – sími: 561-3720 Neyðarnúmer allan sólarhringinn: 561-1205 Netfang: Kvennaathvarf@kvennaathvarf.is Stígamót – sími: 562-6868 / 800-6868 Netfang: stigamot@stigamot.is
Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis Landspítalanum 543 1000 – Aðalskiptiborð LSH 543 2000 – Afgreiðsla bráðamóttöku LSH 543 2094 – Neyðarmóttaka á dagvinnutíma 543 2085 – Áfallamiðstöð LSH Kristínarhús – Sími: 546 3000 Netfang: steinunn@stigamot.is Kvennaráðgjöfin – Sími: 552-1500 Karlar til ábyrgðar – Sími : 555-3020 Drekaslóð – Símanúmer: 551 – 5511 / 860-3358
Bjarkarhlíð – Þolendamiðstöð. Sími: 553-3000
Landsbyggðin:
Aflið, systursamtök Stígamóta á Akureyri – Símanúmer: 461 5959 / 857 5959 Sólstafir, systursamtök Stígamóta á Ísafirði – Sími: 846-7484
Bjarmahlíð – Þolendamiðstöð. Sími: 551-2520